Mannauður

Image
HVENÆR
15. mars 2024
14:00 til 15:45
HVAR
Háskólatorg
Stofa HT-103
NÁNAR

Ókeypis aðgangur

ATH. Hvert erindi fyrirlesara er í 20 mínútur

Ágrip

Rannsóknir sýna að tengsl eru á milli starfsánægju og árangurs skipulagsheilda. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hver þau tengsl eru og hvort munur sé eftir skipulagsformi skipulagsheilda.

Byggt er á fyrirliggjandi gögnum frá 23 skipulagsheildum þar sem lagt er mat á vinnustaðamenningu með mælitækinu DOC‘s árin 2015 til 2022. Heildarfjöldi svara var 1.532 og komu 642 svör frá stofnunum og 890 frá fyrirtækjum. Árangursbreyturnar eru vöxtur, hagnaður/afkoma, gæði vöru og þjónustu, ánægja viðskiptavina og heildarframmistaða.

Niðurstöður sýna að útskýra má 36% (R2 = 0,36; β = 0,60) af breytileikanum í meðaltali árangurs út frá starfsánægju. Þegar tengsl við einstaka árangursþætti voru skoðuð kom í ljós að þau voru sterkust við heildarframmistöðu (R2 = 0,36; β = 0,60) og næst sterkust við ánægju viðskiptavina (R2 = 0,31; β = 0,56). Tengslin við hagnað/afkomu og vöxt voru veikari. Þegar bornar voru saman niðurstöður frá fyrirtækjum annars vegar og stofnunum hins vegar kom í ljós að í þremur árangursbreytum af fimm var meðaleinkunn hærri hjá fyrirtækjum en stofnunum. Mat á áhrifum (eta squared) sýndi að aðeins var hægt að rekja 0,6-1% af breytileikanum í afstöðu til atriðanna út frá því hvort um var að ræða stofnun eða fyrirtæki. Útskýringarhlutfallið (R2) var mismunandi eftir skipulagsformi en hvað meðaltal árangurs varðaði þá var það 0,38 fyrir fyrirtæki en 0,33 fyrir stofnanir.

Takmarkanir rannsóknarinnar liggja fyrsti og fremst í því að um fyrirliggjandi gögn er að ræða og því er vel hugsanlegt að skilgreina og mæla ætti starfsánægju með öðrum hætti en hér er gert. Þá er í gögnunum heldur fleiri svör frá fyrirtækjum en frá opinbera geiranum og fjöldi skipulagsheilda er einnig fleiri í einkageiranum en hinum opinbera.

Dregið er fram með skýrum hætti að tengsl starfsánægju við árangur er mismunandi eftir því um hvaða árangursþátt er að ræða.

Niðurstöðurnar styðja við ýmsar fyrri rannsóknir á tengslum starfsánægju og árangurs en hér er nýbreytnin sú að bera saman skipulagsheildir eftir skipulagsformi.

Lykilorð: Starfsánægja, árangur, fyrirtæki og stofnanir

Ágrip

Stjórnendur eru í meira mæli farnir að gera sér grein fyrir því að andleg og líkamleg vellíðan á vinnustað skiptir máli og hefur áhrif á frammistöðu starfsfólksins og árangur skipulagsheilda. Tilgangur þessarar rannsóknar er að skoða hvaða þættir það eru í vinnuumhverfinu sem hafa mest áhrif á andlega og líkamlega vellíðan á vinnustað. Markmiðið er veita upplýsingar um hvernig hægt er að stuðla að betra vinnuumhverfi og þar með meiri vellíðan í vinnu.

Notast er við meginlegt rannsóknarsnið, spurningalistakönnun þar sem rafrænn spurningalisti var lagður fyrir allt starfsfólk 14 íslenskra sveitarfélaga á vordögum 2023. Alls var spurningalistinn sendur til 10.034 einstaklinga og eftir þrjár ítrekanir höfðu 6.124 svarað spurningalistanum að einhverju eða öllu leyti, eða 61% starfsfólksins. Konur voru í miklum meiri hluta svarenda eða 82% á móti 18% karla.

Niðurstöðurnar sýna að það er ýmislegt í vinnuumhverfinu sem hefur áhrif á andlega og líkamlega vellíðan á vinnustað, veikindafjarvistir og starfsánægju. Má þar helst nefna álag í starfi, sjálfræði í starfi, samskipti á vinnustað, félagslegan stuðning, sanngirni og hvatningu stjórnenda og það að vera metinn að verðleikum á vinnustað. Rannsóknin náði aðeins til starfsfólks 14 af 22 sveitarfélögum með 2000 íbúa eða fleiri.

Niðurstöðurnar sýna að það er ýmislegt sem stjórnendur geta gert til að stuðla að betra vinnuumhverfi og auka vellíðan á vinnustað sem hefur áhrif á þætti eins og starfsmannaveltu, veikindatíðni, framleiðni og starfsánægju. Niðurstöðurnar veita því stjórnendum upplýsingar og auka þekkingu þeirra á vinnutengdri líðan starfsfólksins og þeim þáttum í starfsumhverfinu sem þeir geta haft áhrif á.

Gott vinnuumhverfi stuðlar að aukinni andlegri og líkamlegri vellíðan á vinnustað en vellíðan í vinnu tengist meðal annars upplifun starfsfólks á því að starf þeirra sé mikilvægt og gefandi og vinnuumhverfið sé öruggt og heilsusamlegt. Niðurstöður þessar veita mikilvægar upplýsingar til fræðasamfélagsins um vinnutengda líðan starfsfólks í kjölfar heimsfaraldurs en ætla má að í framtíðinni komi upp fleiri faraldrar eða heilsufarskreppur sem hafa áhrif á skipulagsheildir og starfsfólk þeirra.

Lykilorð: Andleg heilsa, líkamleg heilsa, vellíðan á vinnustað, vinnuumhverfi.

Ágrip

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna samband þrautseigju og vellíðunar. Þetta samband hefur verið rannsakað víða en ekki hefur verið framkvæmd slík rannsókn á Íslandi áður. Rannsóknin byggir á niðurstöðum úr spurningalista sem sendur var út til nemenda við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Notast var við tvö gagnreynd spurningalíkön til að mæla þrautseigju og vellíðan þátttakenda, þrautseigjuskala Angelu Lee Duckworth og Short Warwick-Edinburgh Mental Well Being Scale (SWEMWBS). Til viðbótar voru skoðuð sambönd þrautseigju og vellíðunar við ýmsar aðrar breytur, lýðfræðilegar og heilsufarslegar. Til að greina nánar fylgni þrautseigju og vellíðunar var þrautseigju skipt í tvo flokka ástríðu og einurðar samkvæmt skilgreiningu Angleu Duckworth og vellíðan skipt í eudaímóníska og hedóníska vellíðan samkvæmt skilgreiningu SWEMWBS.

Helstu niðurstöður voru þær að marktæk jákvæð fylgni fannst milli þrautseigju og vellíðunar og að eudaímónísk vellíðan hafði meiri fylgni við þrautseigju en hedónísk. Jafnframt komu áhugaverðar niðurstöður úr skoðunum á fylgni milli einstakra þátta þrautseigju og vellíðunar sem gefa tilefni til frekari rannsókna á þeim undirþáttum sem heildarfylgni þeirra byggir á. Helstu takmarkanir rannsóknarinnar voru fá svör og einsleitur hópur svo erfitt er að heimfæra niðurstöður upp á þýði.

Tilgangurinn var sá að ef eitthvað samband reyndist vera til staðar þá gæti það gefið tilefni til frekari rannsókna sem hefðu það að markmiði að þróa úrræði til eflingar þrautseigju hjá ungu fólki til að hjálpa þeim að verjast auknu algengi þunglyndis, kvíða og streitu. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi lýðheilsukannana Landlæknis sem sýna aukið algengi kvíða og þunglyndis hjá yngri kynslóðum. Þau tengsl sem fundust í þessari rannsókn gætu hjálpað vinnuveitendum að skapa umhverfi og hanna símenntun á vinnustað á þann veg að veita starfsfólki þau nauðsynlegu tæki og úrræði til að verjast streitu og kulnun og til að blómstra í starfi.

Þessi rannsókn sýndi fram á að eudaímónísk vellíðan hafði sterkari tengingu við þrautseigju en hedónísk vellíðan. Þetta er fyrsta rannsóknin á Íslandi sem lítur á þessi tengsl. Sú niðurstaða ásamt því að fjórðungsskipta fylgni milli eudaímónískrar og hedónískrar vellíðunar annars vegar og einurðar og ástríðuþátta þrautseigju hinsvegar gefur tilefni til frekari rannsókna á þessum tengslum til eflingar þrautseigju og vellíðunar hjá einstaklingum.

Lykilorð: Þrautseigja, vellíðan, æðri menntun, vinnumarkaður

Ágrip

Starfsánægja er einn mikilvægasti þátturinn sem hefur áhrif á viðhorf starfsfólks til vinnu og líðan á vinnustað. Tilgangurinn með rannsókninni er að skoða starfsánægju og þá þætti í starfsumhverfinu sem hafa mest áhrif á starfsánægju og hvernig hún hefur áhrif á viðhorf og hegðun á vinnustað.

Notast er við megindlegt rannsóknarsnið, spurningalistakönnun þar sem rafrænn spurningalisti var lagður fyrir allt starfsfólk 14 íslenskra sveitarfélaga á vordögum 2023. Alls var spurningalistinn sendur til 10.034 einstaklinga og eftir þrjár ítrekanir höfðu 6.124 svarað spurningalistanum að einhverju eða öllu leyti, eða 61% starfsfólksins. Konur voru í miklum meiri hluta svarenda eða 82% á móti 18% karla.

Niðurstöðurnar sýna að meðaltal fyrir starfsánægju mældist 4,11 af 5,0 mögulegum. Hvað vinnuumhverfið varðar þá hafði starfsánægja mestu tengslin við möguleika á að vaxa og þróast í starfi, sveigjanleika og sjálfræði í starfi, vinnuaðstæður, vinnuaðstæður og jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Það starfsfólk sem var ánægðara í starfi hafði síður áhuga á að hætta í starfi, var frekar með áform um að vinna áfram á vinnustaðnum næstu árin, var ánægðara með stjórnun vinnustaðarins og starfsandann. Rannsóknin náði aðeins til starfsfólks 14 af 22 sveitarfélögum með 2000 íbúa eða fleiri.

Með því að skoða mismunandi hliðar starfsánægju veitir það stjórnendum upplýsingar um hvað þættir það eru í vinnuumhverfinu sem mikilvægt er að leggja áherslu á og bæta til að auka starfsánægju og þar með að stuðla að meiri skuldbindingu starfsfólks og vellíðan á vinnustað. Upplýsingar um starfsánægju hefur hagnýtt gildi fyrir vinnuskipulag og þar með heilsueflingu og inngrip í starfi. Starfsánægja er það viðfangsefni innan vinnusálfræðinnar sem er hvað mest rannsakað enda einn mikilvægasti þátturinn sem hefur áhrif á viðhorf starfsfólks til vinnu. Óánægja í starfi veldur ekki bara starfsmanninum sjálfum vanlíðan heldur hefur áhrif á skiplagsheildina sjálfa vegna minni framleiðni, auknum veikindafjarvistum og meiri starfsmannaveltu. Þegar vinnuumhverfi er metið er litið á starfsánægju sem afleiðingu af þáttum í vinnuumhverfinu en einnig hefur starfsánægja áhrif á viðhorf og hegðun á vinnustað. Niðurstöður rannsóknarinnar veitir fræðasamfélaginu dýpri skilning og þekkingu á starfsánægju og mikilvægi hennar fyrir starfsfólks og skipulagsheildir innan opinbera geirans og þá þætti sem starfsfólk leggur áherslur á í vinnu í kjölfar heimsfaraldurs.

Lykilorð: Starfsánægja, starfsmannavelta, starfsþróun, vinnuumhverfi

Ágrip

Markmið rannsóknarinnar er að kanna líðan starfsfólks á tímum umróts og breytinga hjá skipulagsheild og varpa ljósi á hvaða þættir innan starfsumhverfis skipulagsheildarinnar höfðu þar helst áhrif.

Gerð var eigindleg rannsókn með viðtölum við níu starfsmenn sem áttu það sameiginlegt að hafa starfað hjá skipulagsheildinni á tímum breytinga og umróts. Um er að ræða tilgangs- og snjóboltaúrtak og sjálfboðna þátttöku karla og kvenna með mismunandi bakgrunn og reynslu innan skipulagsheildarinnar. Gögnin voru greind með þemagreiningu.

Eftir þemagreiningu komu fram þrjú þemu sem lýsa upplifun og reynslu viðmælenda: 1) Örar breytingar og látlausar uppsagnir; 2) Óskýr skilaboð og reynsluleysi stjórnenda; og 3) Slæm andleg og líkamleg líðan. Niðurstöðurnar lýsa upplifun viðmælenda á áhrifum mikils álags, óskýrra skilaboða og takmarkaðra samskipta við yfirstjórn, á líðan þeirra sem kom fram hjá öllum viðmælendum með líkamlegri og andlegri vanlíðan til lengri tíma.

Um er að eigindlega rannsókn og lítið úrtak og þar með eiga niðurstöðurnar einungis við um viðkomandi þátttakendur. Niðurstöðurnar veita engu að síður mikilvæga innsýn í reynslu starfsfólks á tímum umfangsmikilla breytinga og umróts innan skipulagsheildar.

Í starfsumhverfi samtímans má gera ráð fyrir tíðum breytingum innan skipulagsheilda og niðurstöður rannsóknarinnar geta nýst stjórnendum og starfsfólki við slíkar aðstæður með því að varpa ljósi á gildi upplýsinga og uppbyggilegrar og styðjandi stjórnunar til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan starfsfólks.

Þrátt fyrir fjölda rannsókna um áhrif starfsumhverfisþátta á líðan starfsfólks liggja fyrir fáar nýjar rannsóknir, bæði hérlendis og erlendis, um líðan starfsfólks á tímum breytinga og umróts innan skipulagsheilda og þess vegna hefur rannsóknin fræðilegt gildi og getur verið mikilvægt framlag til fræðasviðsins.

Lykilorð: Breytingar, starfsumhverfi, upplýsingar, styðjandi stjórnun