Áskoranir og töfrar í vinnuumhverfinu

Image
Viðskipti og vísindi
HVENÆR
16. mars 2023
13:00 til 15:30
HVAR
Háskólatorg
HT-103
NÁNAR

Aðgangur ókeypis

Ágrip

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 (vinnulöggjöfin), var lögtekin árið 1938. Helsta markmið vinnulöggjafarinnar er að tryggja vinnufrið í landinu og þau eiga að tryggja að vegna árekstra sem kunna að skapast á milli aðila vinnumarkaðarins hljótist sem minnst tjón fyrir atvinnulífið í landinu. Vinnulöggjöfin skapar ramma fyrir samskipta- og leikreglur á íslenskum vinnumarkaði. Frá því að vinnulöggjöfin tók gildi hefur íslenskur vinnumarkaður breyst mikið. Á hinum opinbera vinnumarkaði gilda lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í þessari rannsókn er greint frá þeim breytingum sem þarf að gera á vinnulöggjöfinni, til að hún, í ljósi breyttra samskipta á vinnumarkaði þjóni tilgangi sínum og mikilvægi þess að hafa eina heildstæða löggjöf fyrir allan vinnumarkaðinn.

Í rannsókninni er gerð ítarleg greining á núverandi lögum, l. nr. 80/1938 og l.nr. 94/1986, og þau borin saman, dregin fram munur á þessum tveimur lagabálkum og greint frá því hvað þurfi að samræma.

Niðurstöðurnar sýna að samræma þarf lagareglur um boðun verkfalla á hinum almenna og opinbera vinnumarkaði. Breyta þarf orðalagi sem að mörgu leyti er barn síns tíma t.d. er talað um „verkamenn“ og „verkafólk“ í lögunum. Samræma þarf verkbannsrétt milli vinnumarkaða og frest til verkfallsboðunar, hann er 7 sólarhringar á almennum vinnumarkaði og 15 sólarhringar á opinberum vinnumarkaði. Samræma þarf reglur um atkvæðagreiðslur um verkföll á milli vinnumarkaða og veita opinberum starfsmönnum heimild til að fresta boðuðu verkfalli líkt og heimilt er á almennum vinnumarkaði. Breyta þarf lagaheimildum um embætti ríkissáttasemjara og veita honum heimild til að fresta vinnustöðvun. Skerpa þarf á vinnulagi við gerð viðræðuáætlana í aðdraganda kjarasamninga og taka þarf upp sérlög um sáttastörf í vinnudeilum þar sem opna þarf fyrir leið gerðardóma í langvinnum vinnudeilum. Takmarka þarf rétt fámennra hópa að stöðva starfsemi stórra atvinnugreina. Tryggja þarf að kjarasamningur taki við af kjarasamningi.

Hér er um samanburðargreiningu á tveimur grunnlagabálkum að ræða, vinnulöggjöf sem snýr bæði að hinum almenna vinnumarkaði og opinberum vinnumarkaði. Ekki er gerð greining á verkfallstíðni á þessum vinnumörkuðum. Rannsóknin dregur fram þá þætti sem þarf að huga að varðandi breytingu á vinnulöggjöfinni svo hún geti sinnt meginmarkaði sínu, að tryggja vinnufrið. Niðurstöður sýna að nokkur munur á l.nr.80/1938 og l.nr. 94/1986 og samræming á milli laganna er mikilvæg.

Lykilorð: Vinnulöggjöf, samskipti á vinnumarkaði, verkföll.

Ágrip

Rannsóknin skoðar áhrif verkefnamiðaðs vinnuumhverfis á starfsfólk með tilliti til ánægju með starfsumhverfið og hversu vel starfsfólk telur það henta sér. Sérstaklega eru skoðuð möguleg samvirkniáhrif milli innleiðingar og viðhorfs starfsfólks til verkefnamiðaðs vinnuumhverfis fyrir innleiðingu. Einnig eru skoðuð áhrif á samvinnu, samskipti og sjálfmetna frammistöðu.

Um er að ræða megindlega langsniðs vettvangsrannsókn þar sem gögnum var safnað á fjórum tímapunktum í tengslum við innleiðingu á verkefnamiðuðu vinnuumhverfi. Spurningalisti var lagður fyrir allt starfsfólk tveggja smærri skipulagsheilda, fyrir og eftir innleiðingu. Fyrsta mæling fór fram skömmu fyrir innleiðingu og svo voru þrjár síðari mælingar — einum, sex og tólf mánuðum eftir innleiðingu. Í heildina er um að ræða 152 mælipunkta sem var safnað yfir 13 mánaða tímabil.

Niðurstöður sýna að ánægja starfsfólks með starfsumhverfið sjálft eykst eftir innleiðingu en marktæk samvirkni er við viðhorf til verkefnamiðaðs vinnuumhverfis fyrir innleiðingu. Samskonar samvirkni kemur fram fyrir mat starfsfólks á því hversu vel nýja  vinnuumhverfið henti því. Þegar skoðað er hvort innleiðing verkefnamiðaðs vinnuumhverfis hafi tengsl við samvinnu og samskipti starfsfólks og sjálfmetna frammistöðu þá virðast þau vera frekar takmörkuð.

Takmarkanir rannsóknarinnar snúa að því að hún nær aðeins til tveggja minni skipulagsheilda. Þar af leiðandi, þrátt fyrir ágætt svarhlutfall, er heildarfjöldi þátttakenda lítill. Þá byggja niðurstöðurnar aðeins á eigin upplifun starfsfólks af breytingunum. Aukinn fjöldi vinnustaða er að innleiða verkefnamiðað vinnuumhverfi en um er að ræða verulega breytingu sem kallar á nýja nálgun hjá starfsfólki og stjórnendum. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að leita svara við spurningum um áhrif verkefnamiðaðs vinnuumhverfis á virkni skipulagsheilda og starfsfólk þeirra. Niðurstöðurnar veita innsýn í hvaða áhrif innleiðing getur haft og geta þannig nýst skipulagsheildum sem eru að skoða að taka upp verkefnamiðað vinnuumhverfi. Rannsóknin byggir ofan á fyrri niðurstöður á þessu sviði og skoðar hvernig innleiðing verkefnamiðaðs vinnuumhverfis getur haft árif á starfsfólk yfir tíma. Kallað hefur verið eftir frekari rannsóknum á verkefnamiðuðu vinnuumhverfi, sér í lagi langsniðsrannsóknum. Með endurteknum mælingum á upplifun starfsfólks í gegnum innleiðingarferlið fæst skýr samanburður fyrir og eftir breytingu.

 

Lykilorð: Verkefnamiðað vinnuumhverfi, langsnið, viðhorf starfsfólks

 

Ágrip

Tilgangur rannsóknarinnar er að mæla kulnun meðal starfsfólks íslenskra sveitarfélaga og tengsl kulnunar við ákveðna þætti í starfsumhverfinu, stjórnunarhætti, samskipti og líðan á vinnustað. Markmiðið er að skoða hvað það er sem stjórnendur geti gert til að draga úr neikvæðum áhrifaþáttum kulnunar í starfi og leita þannig leiða til að bæta samband starfsfólks og vinnustaðar, starfsfólki til heilla.

Megindleg aðferðarfræði var notuð en um er að ræða panel rannsókn þar sem starfsfólki 12 íslenskra sveitarfélaga er fylgt eftir. Rafrænn spurningalisti var sendur á netfang allra starfsmanna í viðkomandi sveitarfélögum á vordögum 2019 og 2021. Aðeins voru notuð svör þeirra sem svöruðu spurningalistanum í báðum fyrirlögnunum. Eftir þrjár ítrekanir höfðu 65% svarað spurningalistanum árið 2019 eða 4.144 starfsmenn. Af þessum 4.144 starfsmönnum svöruðu 1.576 spurningalistanum í annað sinn og gáfu upp kóða til að para saman gögnin, 82% konur og 18% karlar.

Niðurstöðurnar sýna að hærra hlutfall starfsfólksins mældist með alvarleg kulnunar einkenni í fyrirlögninni 2021 en 2019. Fram komu sterk tengsl milli kulnunar og vinnuálags, samskipta á vinnustaðnum, starfsánægju, löngunar til að hætta og samspils vinnu og einkalífs. Miðlungs sterk tengsl reyndust milli kulnunar og sjálfræði í starfi, félagslegs stuðnings frá yfirmanni, þróunar í starfi, hvatningu á vinnustað og upplifun á umhyggju frá yfirmanni.

Takmarkanir rannsóknar snúa að því að hún náði aðeins til 12 af 22 sveitarfélögum sem eru með 2000 íbúa eða fleiri. Rannsóknin notast við panelgögn og því verður svarhlutfall reiknað frá upprunalegu þýði og því lægra en ella. Þó er talinn styrkleiki í gögnunum. Niðurstöðurnar sýna glöggt að það er ýmislegt sem stjórnendur geta gert til að draga úr líkum á kulnun í starfi og veitir rannsókninn því stjórnendum betri forsendur en ella til að stýra vinnustaðnum á farsælli hátt og skapa starfsfólki gott starfsumhverfi. Rannsóknir á kulnun í starfi hafa aukist á síðustu árum enda kulnun orðið vandamál í mörgum starfsgreinum og vinnustöðum um allan heim. Niðurstöður rannsókna sýna að kulnun tengist ýmsum þáttum í starfsumhverfinu og vinnuaðstæðum eins og auknu álagi í starfi, sjálfræði í starfi og félagslegum stuðningu og hefur áhrif á starfsgetu og starfsánægju starfsfólks. Þessi rannsókn veitir nýja þekkingu á því hvernig ákveðnir þættir í starfsumhverfi starfsfólks sveitarfélaga, stjórnunarhættir, samskipti og líðan á vinnustaðnum geta leitt til eða verið verndandi þættir gagnvart kulnun í starfi.

Lykilorð: Kulnun, samskipti, starfsumhverfi, stjórnunarhættir

Ágrip

Markmið rannsóknarinnar er að gera grein fyrir langtímaafleiðingum eineltis á vinnustað fyrir þann sem verður fyrir því. Gerð verður grein fyrir helstu afleiðingum eineltis og hvernig einstaklingar upplifa þær.

Aðferðin sem notuð var við gerð þessarar rannsóknar var eigindleg rannsóknarðferð sem þykir góð aðferð til að varpa ljósi á upplifun, tilfinningar og fyrri reynslur fólks og gaf hér gott sjónarhorn á viðfangsefnið. Tekin voru viðtöl við sjö einstaklinga, fimm konur og tvo karla, sem allir höfðu upplifað einelti á vinnustað í sex mánuði eða lengur og gátu gefið ríka innsýn í þær afleiðingar sem eineltið hafði á líf þeirra til lengri tíma.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að allir viðmælendur upplifðu langtímaafleiðingar af einelti á vinnustað, svo sem kvíða, þunglyndi og áfallastreitu. Allir viðmælendur misstu starf sitt og fannst vegið að orðspori sínu sem gat leitt til langvarandi atvinnuleysis og mikillar óvissu. Þeir sem treystu sér aftur á vinnumarkað töldu sig ekki geta sinnt fullu starfi nema með miklum sveigjanleika og þrír voru komir á örorkulífeyrir. Tveir viðmælenda þurftu að leita sér aðstoðar á bráðamóttöku geðdeildar. Niðurstöður sýna þannig að langtímaafleiðingar geta verið andlegar, líkamlegar og fjárhagslegar en jafnframt að einstaklingar fari í gegnum sorgarferli þar sem líf viðmælenda gjörbreyttist frá því sem áður var eftir að hafa tilkynnt um einelti á vinnustað.

Þar sem um er að ræða eigindlega rannsókn þá er vafasamt að alhæfa niðurstöður yfir á alla þá sem upplifa einelti. Þar sem viðmælendur voru ekki valdir af handahófi geta niðurstöður verið skekktar. Þessi kafli hefur hagnýtt gildi fyrir stjórnendur á vinnustað, stofnanir eins og VIRK, Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitið en einnig sem stefnumótun opinberra aðila í þessum málaflokki. Það eru til fáar rannsóknir um einelti á vinnustað á íslenskum vinnumarkaði og þær snúa aðallega að tíðni eineltis og afleiðingum en skoða þarf sérstaklega þær langtímaafleiðingar sem eineltið getur haft á þolanda. Vísindalegt framlag er að varpa ljósi á viðfangsefni sem lítið hefur verið fjallað um í alþjóðlegu- og innlendu samhengi.

Lykilorð: Einelti á vinnustað, langtímaáhrif, eigindleg rannsókn

Ágrip
 

Félagslegum þáttum hversdagslífsins er sjaldan gefið það vægi sem þeir eiga skilið. Ein ástæða þess er órðæðni þess félagslega sem hefur ekki hlutlæga tilvist heldur virkar öllu frekar sem ósýnilegt afl sem hefur fjölbreytt áhrif á einstaklinga og hópa. Við lítum því gjarnan á félagslegan veruleika okkar sem gefinn, og gefum honum því ekki sérstakan gaum. Félagslegur veruleiki okkar getur þannig orðið útundan við umfangsmiklar breytingar á skipulagi og högum umhverfis okkar. Í þessu erindi er dregið fram mikilvægi þessa félagslega veruleika vinnunnar og þær ógnir sem hann stendur frammi fyrir.

Erindið er byggt á greiningu á nýju hugtaki sem höfundur kallar félagslega töfra (e. social magic).  Sett er fram skilgreining á hugtakinu og færð rök fyrir mikilvægi félagslegra töfra á vinnustaðnum, sem og hvernig félagslegum töfrum á vinnustaðnum er ógnað af tæknibyltingunni í kjölfar Covid faraldursins.

Niðurstöðurnar sýna að Covid faraldurinn hafði mikil áhrif á innleiðingu samskiptatækni í daglegu lífi vestrænna samfélaga, þar sem tæknin var tekin inn í meiri mæli en áður hefur þekkst. Þetta á sérstaklega við á vinnustöðum. Netfundir, vinna að heiman, aukin sjálfvirkni (e. automation), sem og almenn nýting samskiptatækni er sífellt að ryðja sér til frekar rúms í kjölfar Covid faraldursins. Erindið fjallar um hvernig tæknivæðing vinnustaða dregur úr tækifærum starfsfólks til að upplifa félagslega töfra, byggja upp félagsauð og samofið samfélag, og dregur þannig úr tækifærum og gildi vinnunnar.

Erindið byggir ekki empírískri rannsókn en það hefur gildi fyrir þá sem hafa áhuga á liðssamvinnu, liðsvirkni og samskiptum yfir höfuð. Þá kynnir höfundur nýtt félagsfræðilegt hugtak sem getur hjálpað samfélaginu að átta sig á gildi félagslegs samneytis.

Lykilorð: Félagslegir töfrar, tæknivæðingin, samfélag, auglitis-til-auglitis samskipti, uppspretta, óbein þekking, félagsauður.

 

 

Ágrip

Meðferð og skipulag upplýsinga hefur tekið umtalsverðum breytingum í kjölfar aukinnar fjarvinnu og stafvæðingar, ekki síst þegar um fordæmalausar aðstæður er að ræða. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvaða áhrif þessir þættir hefðu á aðgengi og öryggi upplýsinga.

Stuðst var við blandaða aðferðafræði. Í megindlegum hluta var unnið með íslenskar niðurstöður fjölþjóðlegrar spurningakönnunar frá maí og júní 2022. Stuðst var við lýsandi tölfræði auk innihaldsgreiningar. Eigindleg gögn samanstanda af 32 viðtölum við skjalastjóra, mannauðsstjóra, æðstu stjórnendur og almennt starfsfólk sem fóru fram 2016-2018 og 2020-2022. Einnig var orðræðugreiningu beitt á fyrirliggjandi efni úr fjölmiðlum.

Niðurstöður voru að upplýsingaöryggi var óbótavant hjá flestum skipulagsheildanna. Meginhluti þeirra hafði hvorki sett sér stefnu né verklagsreglur um aðgengi að skjölum í fjarvinnu. Þá kom fram að fæstar skipulagsheildanna höfðu markvisst eftirlit með vistun upplýsinga/skjala. Algengara var að upplýsingar glötuðust við fjarvinnu fremur en á skrifstofum. Niðurstöður spurningakönnunar sýndu að lítill hluti svarenda hafði reynslu af fjarvinnu fyrir heimsfaraldur. Þeir töldu að litlar breytingar hefðu orðið á skjalavistunarkerfum vegna fjarvinnu en töluverð aukning á notkun annarrar skýjaþjónustu. Þeim breytingum fylgdu í fæstum tilvikum leiðbeiningar eða reglur um skipulag skjalamála. Þó töldu flestir svarendanna að gæði skjalastjórnar hafi ekki breyst í fjarvinnu.

Könnunin náði til sérfræðinga á sviði upplýsinga- og skjalamála sem störfuðu í flestum tilvikum hjá opinberum aðilum sem kann að takmarka niðurstöður. Á hinn bóginn var unnið með fjölþættar rannsóknaraðferðir, svo sem viðtöl við viðmælandur frá hinu opinbera sem og einkageiranum sem vega upp á móti mögulegum takmörkunum og auka trúverðugleika niðurstaðna. Niðurstöður gætu haft hagnýtt gildi fyrir stefnumótun og aðgerðaáætlun skipulagsheilda hvað vinnulag með upplýsingar í fjarvinnu varðar og verið leiðbeinandi við að bæta öryggi nauðsynlegra skjala og um leið stuðlað að réttmættu aðgengi starfsfólks að þeim í samræmi við ytri og innri kröfur til starfseminnar. Rannsóknin varpar ljósi á dagleg störf í fjarvinnu og nýtist sem grunnur að frekari rannsóknum á sviði fjarvinnu og upplýsingastjórnunar.

 Lykilorð: Fjarvinna, Upplýsingastjórnun, Upplýsingaöryggi, Stafræn þróun