Stjórnun og stjórnarhættir
14:00 til 15:45
Ókeypis aðgangur
ATH. Hvert erindi fyrirlesara er í 20 mínútur
Ágrip
Á árinu 2023 var gerð fýsileikakönnun um hvort að sameina ætti háskólana á Bifröst og Akureyri. Nýleg yfirlýsing ráðherra og rektora skólana gefur til kynna að nú verði unnið að þessari sameiningu á árinu 2024. Leitast verður við að varpa ljósi á hvað felst í samrunum og hvernig samlegðin skuli metin samkvæmt kenningum og rannsóknum um samruna og yfirtökur (mergers & aquisitions). Tilgangur umfjöllunarinnar er að meta möguleg jákvæð og neikvæð samlegðaráhrif og verður horft til annarra landa og reynslu þeirra af sameiningum háskóla.
Aðferðafræðin byggir á dæmisögu/tilviksrannsókn (e. single case study) og gerður verður samanburður við fræðilegar rannsóknir á samrunum með tilliti til háskóla. Byggt á greiningu á þessum hugtökum sem kallast samruni (merger) og samlegð (synergy). Settar eru fram skilgreiningar á hugtökunum og færð rök fyrir möguleikum í stöðunni.
Ekki er tímabært að álykta um hver niðurstaðan verði af samruna háskólanna en hægt að byggja á niðurstöðum á þeim erlendu tilviksrannsóknum sem hafa verið árangursríkar og reynt að geta sér til um mögulega kosti og galla í þessum efnum. Ljóst er að niðurstöður munu sýna bæði jákvæð og neikvæð samlegðaráhrif í þessu tilviki. Takmarkanir tilviksrannsókna byggjast meðal annars á því að erfitt er að alhæfa út frá niðurstöðum á einstaka tilvikum. Umfjöllunin hér byggir ekki á empírískri rannsókn en hefur gildi fyrir þá sem hafa áhuga á samvinnu og samskiptum í breytingastjórnun skipulagsheilda. Takmarkanir snúa að því að byggt var á fyrirliggjandi gögnum, s.s. skýrslum og kynningarefni þ.m.t. fýsileikaskýrslu stýrihóps skólanna. Greiningar út frá þeim staðreyndum geta engu að síður verið gagnlegur leiðarvísir við áframhaldandi vinnu í þessari sameiningu og læra má af samrunum annarra skipulagsheilda.
Hagnýtt gildi snýr að því að rannsóknin leitast við að varpa ljósi á raundæmisögu um sameiningar og breytingarstjórnun og hvaða þætti ber að hafa í huga þegar samrunar eru annars vegar, sem mun leiða af sér betri skilning á því sem getur raungerst eða a.m.k. þá þætti sem þarf að hafa í huga. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi um raunverulegar sameiningar og samanburð við helstu kenningar. Rannsóknin er því framlag til breytingarstjórnunar skipulagsheilda og um það hvernig þær geta staðið að samrunum svo vel til takist. Niðurstöður gætu nýst stjórnendum og stjórnvöldum í þeirri vinnu sem framundan er.
Lykilorð: Breytingastjórnun, samrunar, samlegðaráhrif, skipulagsheildir
Ágrip
Markmið þessarar rannsóknar er rannsaka þá þætti sem stuðla að samkeppnisforskoti í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum frá sjónarhorni forstjóra og að sama skapi að kanna hvernig framtíðarsýn fyrir fyrirtækin gæti litið út.
Aðferðafræðin felur í sér eigindlega rannsóknaraðferð sem byggir á ítarlegum djúpviðtölum við níu forstjóra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, en þessi fyrirtæki eru með um 50% af úthlutuðum veiðikvóta hér á landi. Ennfremur er byggt á fyrirliggjandi gögnum frá fyrirtækjunum og stofnunum sjávarútvegsins.
Niðurstöður benda til þess að samkeppnisforskot í greininni sé að færast frá áherslu á auðlindamiðaða nálgun (Resource Based View) yfir í markaðsmiðaðri nálgun (Market Based View). Einnig kemur fram í greiningu á gögnum að endurskoðuð framtíðarsýn er að þróast hjá fyrirtækjunum. Helsta takmörkun þessarar rannsóknar er takmarkaður fjöldi viðtala. Þó er rétt að undirstrika að stærstu fyrirtækin með um helming af úthlutuðum veiðikvóta eru þátttakendur í rannsókninni.
Niðurstöður þessarar rannsóknar fela í sér framlag í umræðunni um samkeppnisforskot og framtíðarsýn. Framlagið er einnig mikilvægt fyrir atvinnugreinina sem slíka og varpar ljósi á bæði áskoranir og tækifæri.
Lykilorð: Samkeppnisforskot, framtíðarsýn, markaðsmiðuð nálgun, auðlindamiðuð nálgun, sjávarútvegur, framkvæmdastjóri.
Ágrip
Í þessari rannsókn er kannað hvort meðlimum tilnefningarnefnda finnist sjálfsmat stjórnar gagnlegt tæki til að leggja mat á samsetningu stjórna og til að greina umsækjendur um stjórnarsæti.
Spurningalisti var lagður fyrir fulltrúa í tilnefningarnefndum í skráðum fyrirtækjum á Íslandi þar sem svör bárust frá 33 þátttakendum. Við hönnun spurningalistans var notað rannsóknarlíkan (TAM) til að mæla gagnsemi upplýsinga sem fengnar voru úr sjálfsmati stjórnar.
Niðurstöður línulegrar aðhvarfsgreiningar sýna að því jákvæðari sem skynjunin er á gagnsemi upplýsinga sem fást úr sjálfsmati stjórnar og því jákvæðari sem viðhorf er til notkunar sjálfsmats stjórnar, því líklegra er að meðlimir tilnefningarnefnda noti upplýsingarnar. Niðurstöðurnar styðja mikilvægi og gildi þess að framkvæma stjórnarmat reglulega. Niðurstöðurnar benda enn fremur til þess að sjálfsmat stjórnar veiti almennt gagnlegar upplýsingar fyrir tilnefningarnefndir til að styðjast við í starfi sínu.
Gögnin eru takmörkuð við skráð fyrirtæki á Íslandi. Svarendur eru fáir en þýði á Íslandi er einnig lítið. Rannsóknin ýtir þó undir fræðilegan skilning á gagnsemi sjálfsmats stjórna fyrir tilnefningarnefndir.
Rannsóknin varpar ljósi á gildi sjálfsmats stjórnar fyrir tilnefningarnefndir og virðist vera fyrsta sinnar tegundar á Íslandi í þessum efnum. Í ljós kemur að tilnefningarnefndir reiða sig mjög á niðurstöður sjálfsmats stjórna í störfum sínum.
Á alheimsvísu hefur skort rannsóknir á sjálfsmati stjórna og notagildi þeirra. Rannsókn þessi er sú fyrsta sinnar tegundar þar sem sjónum er sérstaklega beint að viðhorfum og notkun aðila í tilnefningarnefndum.
Lykilorð: Stjórnarhættir fyrirtækja, stjórnir, sjálfsmat stjórna, skilvirkni í starfi stjórna, tilnefnindarnefndir.
Ágrip
Rannsóknir sem unnar hafa verið á tilnefningarnefndum erlendis sýna að fjölbreytni innan tilnefningarnefnda getur haft áhrif á tilnefningar nefndanna. Markmið þessarar rannsóknar er að fá innsýn í viðhorf hagaðila um hverja eigi helst að skipa í tilnefningarnefndir út frá menntun, reynslu og persónuleika.
Tekin voru viðtöl við þrettán einstaklinga sem eru hluthafar eða stjórnarmenn í skráðum félögum eða eiga sæti í tilnefningarnefndum. Til viðbótar var stuðst við niðurstöður spurningakönnunar sem var send til hluthafa, stjórnarmanna, tilnefningarnefndarmanna og fulltrúa 300 stærstu fyrirtækja á Íslandi. Alls fengust 138 svör.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að mikilvægt er fyrir nefndarmenn að hafa stjórnunarreynslu eða reynslu af stjórnarsetu. Fjölbreytni innan nefndanna er talin mikilvæg og margir töldu að stjórnarmenn ættu helst aðeins að eiga sæti í tilnefningarnefnd ef þeir hyggjast ekki bjóða sig aftur fram í stjórn.
Tilnefningarnefndir hafa á síðustu árum verið að ryðja sér til rúms innan stjórnarhátta fyrirtækja, bæði á Íslandi og erlendis og hefur meirihluti skráðra félaga á Íslandi stofnað slíkar nefndir. Skiptar skoðanir eru þó um ágæti nefndanna, sem og þáttum er snúa að því hverja eigi að skipa í þær nefndir. Nefndirnar á Íslandi eru ólíkar þannig að í sumum þeirra eiga stjórnarmenn sæti en í öðrum ekki og er bakgrunnur í reynslu og menntun nefndarmanna ólíkur. Rannsóknin varpar ljósi á skoðun hagaðila hvað varðar samsetningu tilnefningarnefnda.
Niðurstöður rannsóknarinnar geta gagnast hluthöfum og stjórnum þegar kemur að stofnun, skipulagi og samsetningu tilnefningarnefnda.
Lykilorð: Tilnefningarnefndir, stjórnarhættir, nefndarmenn, undirnefndir.
Ágrip
Hornsteinn fjármálastofnanna er lögmæti. Það er grunnurinn fyrir því að viðskiptavinir treysti þeim fyrir innlánum og annarri þjónustu sem bankar veita. Samkvæmt stofnanakenningum takast skipulagsheildir stöðugt á við það að viðhalda lögmæti og takast á við rekstrarlegar áskoranir. Á óvissutímum, eins og með tilkomu fjórðu iðnbyltingarinnar, takast fleiri en eitt skoðanakerfi á og eru oftar en ekki í mótssögn. Rannsóknir á bönkum hafa sýnt fram á að hefðbundið banka skoðanakerfi byggi á því að skipulagsheildin sé rekin með hagkvæmni og hagnaði. Nú standa fjármálastofnanir frammi fyrir skoðanakerfum, svo sem því upplýsingatæknilega, sem gætu mögulega ógnað hefðbundnu lögmæti banka.
Rannsóknin miðar að því að greina hvaða skoðanakerfi eru til staðar innan banka á Íslandi. Hálfstöðluð eigindleg viðtöl í anda grundaðrar kenningar voru tekin við 11 einstaklinga sem starfa hjá fimm bönkum á Íslandi. Annars vegar einstaklingar frá viðskiptahlið og hins vegar upplýsingatækni bankanna.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að innan íslenskra banka eru ólík skoðanakerfi að takast á. Mikla togstreitu er að finna og þá einna helst innan þeirra eldri sem vilja halda í lögmæti hefðbundinnar bankastarfsemi. Á sama tíma er meirihluti viðmælenda á því að bankar séu í raun orðnir að hugbúnaðarfyrirtæki.
Takmarkanir rannsóknarinnar snúa að því að niðurstöður byggja á fáum eigindlegum viðtölum og því ekki hægt að staðhæfa að mettun hafi náðst. Einnig að sú togstreita sem hér kemur fram gildi um alla bankastarfsemi á Íslandi. Í rannsókninni hallaði enn fremur á önnur kyn en karlmenn en æskilegra hefði verið að hafa kynjahlutföll jafnari.
Hagnýtt gildi er fyrir banka að gera sér grein fyrir áskorunum og tækifærum. Sem dæmi er varðar mannauð, samsetningu stjórna, stefnumótunar og þróunar upplýsingatækni innan bankanna. Einnig til að hugsa lausnir sem viðhalda lögmæti en fylgja á sama tíma tækniþróun. Fræðilegt gildi felst í því að skoða hvernig skipulagsheildir, sem byggja tilveru sína á lögmæti, takast á við tæknibreytingar. Í því samhengi er athyglisvert að kanna hvort munur er á milli eldri og yngri skipulagsheilda.
Lykilorð: Bankar, upplýsingatækni, skoðanakerfi, lögmæti.