Stjórnun og forysta
11:00 til 13:00
Aðgangur ókeypis
Ágrip
Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvað einkennir leiðtogastíla stjórnenda í íslenskum líftæknifyrirtækjum. Markmiðið var að draga fram hvernig stjórnendur upplifa sig í starfi, hvernig þeir meta sjálfa sig í stakk búna til að takast á við helstu áskoranir sem upp geta komið á vinnustað og hver þeirra bakgrunnur er. Lagt var mat á áhersluatriði stjórnenda í líftæknifyrirtækjum og hvernig það samræmist kenningum um árangursríka leiðtogastíla.
Rannsóknin byggir bæði á fræðilegri umfjöllun um leiðtogastíla og árangursríka stjórnun líftæknifyrirtækja, sem felst meðal annars í tæknilegri kunnáttu, samskiptahæfni, teymisforystu, nýsköpun og stefnumótandi þekkingu. Rannsóknaraðferðin var eigindleg þar sem tekin voru hálf-opin viðtöl við átta stjórnendur innan átta líftæknifyrirtækja frá september til nóvember 2020. Í viðtölunum voru stjórnendur beðnir um að segja frá eigin leiðtogastíl, áherslum sínum og skoðunum tengdum leiðtogamennsku. Opin kóðun og þemagreining leiddi í ljós áherslur sem voru sameiginlegar í frásögnum viðmælenda.
Rannsóknin leiddi í ljós að áhersluatriði stjórnenda samræmast því sem talið er að felist í árangursríkri stjórnun líftæknifyrirtækja á borð við að skapa svigrúm fyrir mistök, áherslu á teymisvinnu, jafningjabrag og virðingu, þætti sem líkjast helst kenningunni um dreifða forystu. Aftur á móti voru viðmælendur sammála um að þeir væru ekki fullir sjálfstrausts þegar reyndi á úrlausn mála og margir nefndu að veikleikar þeirra lægju í stjórnunarhlið starfsins og vildu bæta hæfni sína á því sviði. Jafnframt bentu niðurstöður til að leiðtogastílar viðmælenda mótist fremur af starfsumhverfi fyrirtækjanna sjálfra en út frá stjórnendamenntun eða reynslu annars staðar frá.
Helstu takmarkanir rannsóknarinnar snúast um alhæfingargildi þar sem ekki er hægt að staðhæfa að sambærileg niðurstaða komi fram ef rannsóknin verður endurtekin og endurspeglar því aðeins úrtakið. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar felst í því að benda á hagnýtar tillögur um mikilvægi þess að bæta þekkingu, menntun og hæfni hjá stjórnendum í líftæknifyrirtækjum sem hafa sérþekkingu í sínu fagi en skortir leiðtogaþjálfun. Fræðilegt gildi snýr að því að leiðtogastílar stjórnenda innan íslenskra líftæknifyrirtækja eru í samræmi við fræðilega umfjöllun. Rannsóknin benti einnig til þess að skipun stjórnenda sé að mestu leyti byggð á menntunarstigi í viðkomandi geira og að þeim skortir formlega leiðtogaþjálfun, virðist því lítil áhersla lögð á hæfni er kemur að stjórnun.
Lykilorð: Leiðtogastílar, líftæknifyrirtæki, stjórnendur, leiðtogaþjálfun.
Ágrip
Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á stöðu þekkingar um áherslur stjórnenda og áhrifaþætti í starfsumhverfi sem skapa vellíðan. Jafnframt að varpa ljósi á hvort áherslur þjónandi forystu feli í sér sálfélagslega þætti sem bæta samskipti, vellíðan og vinnustaðamenningu samkvæmt rannsóknum þar um.
Skoðuð var staða þekkingar og nýjar rannsóknir um áhrifaþætti í starfsumhverfi, samspil sálfélagslegra þátta og áherslur forystu sem tengjast vellíðan í starfi miðað við nýjar rannsóknir þar um og líkön sem byggja á gagnreyndri þekkingu.
Rannsóknir um sálfélagslega þætti á vinnustað sem tengjast vellíðan og jákvæðri vinnustaðamenningu og gagnreynd líkön þar um sýna að mikilvægum áhrifaþáttum má skipta í þrjá flokka: 1) sjálfræði og gagnkvæman stuðning, 2) persónulegan styrk og innri starfshvöt og 3) sameiginlegan tilgang og skýra ábyrgðarskyldu. Þá sýna rannsóknir að forysta sem eflir áðurnefnda þætti byggir á lýðræðislegri nálgun og virkjar þátttöku og ábyrgð starfsfólks. Rannsóknir sýna að áherslur þjónandi forystu endurspegla þessa þrjá þætti og að líta má á hugmyndafræði þjónandi forystu sem mikilvægan grunn jákvæðrar vinnustaðamenningar.
Rannsóknin takmarkast meðal annars af því að fáar langtímarannsóknir liggja fyrir um efnið. Samantekt á stöðu þekkingar getur þó gefið mikilvægar vísbendingar um efnið og bent á þætti sem brýnt er að rannsaka frekar. Í niðurstöðunum felast skilaboð til stjórnenda og starfsfólks um árangursríkar áherslur sem styrkja vellíðan starfsmanna og góða vinnustaðamenningu og að heilsueflandi þjónandi forystu getur reynst gagnleg til að styrkja þær áherslur. Niðurstöður rannsóknarinnar eru framlag til þekkingar um árangursríka forystu til að efla vellíðan starfsfólks og jákvæða vinnustaðamenningu.
Lykilorð: Vellíðan, stjórnun, þjónandi forysta, vinnustaðamenning
Ágrip
Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða stjórnun og stjórnunarhætti hjá íslenskum sveitarfélögum á tímum COVID-19. Markmiðið var að komast að því hverjar voru helstu áskoranir sem stjórnendur íslenskra sveitarfélaga stóðu frammi fyrir í COVID-19 heimsfaraldrinum.
Tekin voru einstaklingaviðtöl við bæjarstjóra í 10 af 22 sveitarfélögum með 2.000 íbúa eða fleiri. Viðtölin fóru fram í gegnum Teams 2.-24. mars og voru 19 til 35 mínútur að lengd. Viðtölin voru tekin upp, afrituð og þemagreind.
Niðurstöðurnar sýna að helsta áskorun bæjar- og sveitarstjóranna var að halda stofnunum opnum með viðeigandi mönnun og þjónustustigi í mjög krefjandi aðstæðum. Fram kom meðal annars hjá bæjar- og sveitarstjórunum að ráðningarumhverfi opinberra starfsmanna sé mjög niður njörvað og starfsmannarétturinn ríkur. Sá réttur gerði það að verkum að erfitt var að færa starfsfólk á milli starfa þegar á þurfti að halda. Starfsfyrirkomulagið gjörbreyttist í einu vetfangi, allir áttu að vinna heima sem gátu og það var vandasamt að púsla því saman. Margar stofnanir voru undirmannaðar, bæði vegna veikinda og manneklu fyrir COVID-19. Á sama tíma kom stytting vinnuvikunnar til framkvæmda sem jók enn frekar á mönnunarvandann og skapaði meira álag á það starfsfólk sem var í vinnu. Margir stjórnendur fóru þá leið að valdefla starfsfólkið en einnig kom fram í máli bæjar- og sveitarstjóranna hversu öflugir stjórnendur væru innan sveitarfélaganna, samstaða og samheldni hafi aukist og allir voru boðnir og búnir að leggja mikið á sig til að láta hlutina ganga upp. Jafnframt kom fram að mörg sveitarfélög eiga við rekstrarvanda að stríða og kostnaður þeirra jókst vegna COVID-19.
Takmarkanir rannsóknarinnar beinast að því að hún náði aðeins til 10 af 22 sveitarfélögum sem eru með 2.000 íbúa eða fleiri. Draga má þann lærdóm af þessari rannsókn að á erfiðum tímum þegar þjóðin og vinnustaðir standa frammi fyrir erfiðu og áður óþekktu verkefni þá stendur fólk saman, styður hvert annað og finnur lausnir til að takast á við ógn eins og COVID-19 faraldurinn. Sveitarfélög spila mikilvægt hlutverk í samfélögum bæði sem veitendur grunnþjónustu og sem atvinnurekendur en sveitarfélögin sem heild eru stærsti vinnustaður landsins. Rannsóknir hafa sýnt að þegar skipulagsheildir standa frammi fyrir utanaðkomandi ógn sem hefur neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi þeirra þá grípa þau gjarnan til niðurskurðar í starfsmannahaldi. Framlag þessarar rannsóknar er mikilvægt innlegg inn í stjórnun og stjórnunarhætti á tímum óvissu og skipulagsbreytinga.
Lykilorð: Stjórnun, stjórnunarhættir, niðurskurður, starfsmannahald
Ágrip
Á árinu 2021 kom í ljós að skipulagsheildin Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hafði verið kunnugt um en hylmt yfir meintum kynferðisbrotum innan sambandsins. Þetta vakti hörð viðbrögð í samfélaginu og krísa hófst hjá KSÍ í kjölfarið. Leitast verður við að varpa ljósi á atburðarásina og krísuna en einnig hvernig vænlegast hefði verið samkvæmt kenningum í krísufræðum að bregðast við, til að lágmarka eða koma í veg fyrir neikvæð áhrif hennar.
Kenningar SCCT (Situational Crisis Communication Theory) hafa verið ríkjandi í fræðilegum rannsóknum á krísustjórnun þar sem lögð er áhersla á hvernig brugðist skuli við krísu og aðferðir þróaðar í takt við viðbrögð. Aðferðafræðin byggir á dæmisögu/tilviksrannsókn (e. single case study) og gerður samanburður við fræðilegar rannsóknir krísustjórnunar. Viðfangsefnið sem verður til skoðunar í þessari rannsókn eru viðbrögð við krísum með dæmisögu KSÍ til hliðsjónar.
Ekki er hægt að álykta að krísustjórnun KSÍ hafi verið árangursrík þegar niðurstöður eru bornar saman við erlendar tilviksrannsóknir en niðurstöðurnar sýna að krísustjórnun KSÍ var ófullnægjandi. Aðal mistök KSÍ voru að hundsa viðvörunarbjöllur og bregðast seint við en skipulagsheildinni skorti allan trúverðugleika í krísuviðbrögðum. Ef KSÍ hefði tekið mið af rannsóknum í krísufræðum og viðurkenndum aðferðum í krísustjórnun hefði krísan ekki orðið jafn mikil og víðtæk eins og raunin varð.
Takmarkanir rannsóknarinnar byggjast meðal annars á því að raundæmisrannsóknir hafa verið gagnrýndar þar sem erfitt er að alhæfa út frá niðurstöðum á einstaka tilvikum. Rannsóknin byggir á staðfestum tímasettum gögnum úr úttektarskýrslu ÍSÍ. Greiningar út frá raundæmum eru engu að síður gagnleg fordæmi þar sem þau gera skipulagsheildum kleift að læra af krísum annarra. Hagnýtt gildi snýr að því að rannsóknin leitast við að varpa ljósi á krísu með raundæmisögu um krísustjórnun og hvernig þættir krísustjórnunar voru hjá KSÍ. Skoðuð eru tilvik í samhengi við kenningar um krísustjórnun, sem mun leiða af sér betri skilning á því sem gerðist. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi um raunverulegar krísur, krísuviðbrögð og samanburð við helstu kenningar. Rannsóknin er því framlag til breytingarstjórnunar um það hvernig skipulagsheildir geti brugðist rétt við aðstæðum sem kallast krísur.
Lykilorð: Skipulagsheildir, krísur, kenningar í krísustjórnun