Sjálfbærni

Image
Viðskipti og vísindi
HVENÆR
17. mars 2023
14:00 til 16:00
HVAR
Háskólatorg
HT-103
NÁNAR

Aðgangur ókeypis

Ágrip

Upplýsingagjöf fyrirtækja um umhverfis- og félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS) er lykilmælitæki til að greina hversu vel fyrirtækjum gengur að ná markmiðum sínum á sviði sjálfbærni. Matsfyrirtæki á sviði sjálfbærni nýta gögn til einkunnargjafar á frammistöðu fyrirtækja gagnvart UFS-þáttum og fagfjárfestar sem horfa til sjálfbærni við  fjárfestingar nota þær einkunnir til ákvarðanatöku. Rannsóknin leitast við að greina hvort mögulegur skortur á gæðum í UFS upplýsingagjöf hindri víðtæka innleiðingu UFS þátta vegna  ákvarðana meðal fagfjárfesta. 

Hálf-opin viðtöl voru tekin við níu sérfræðinga og stjórnendur meðal skráðra fyrirtækja á Íslandi, sjálfbærnimatsfyrirtækja og fagfjárfesta, sem taka þátt í eða stýra innleiðingu UFS þátta. Upplýsingarnar voru greindar eftir virðiskeðju, það er frá birtingu þeirra, til notkunar við einkunnargjöf sjálfbærnimatsfyrirtækisins til ákvörðunar meðal fagfjárfesta. 

Niðurstöður benda til þess að upplýsingar sem byggðar eru á sjálfsmati fyrirtækis á eigin frammistöðu á sviði sjálfbærni séu óáreiðanlegar. Þær upplýsingar eru ekki í samræmi við raunverulega starfshætti viðkomandi fyrirtækja. Þá vekja viðskipti með kolefnisheimildir áhyggjur hjá hluta fagfjárfesta, en þeir draga í efa áreiðanleika umhverfisgagna ef mælikvarðar á kolefnislosun byggjast á keyptum kolefnisheimildum. Þá velta fagfjárfestar fyrir sér hver þýðing sjálfbærnivottana sé og hvernig megi túlka þær í sjálfbærniskýrslum. Niðurstöður benda til þess að áhyggjur fagfjárfesta af lökum gæðum upplýsinganna hindri víðtækari notkun þeirra fjárfesta sem horfa til sjálfbærni við  fjárfestingar.

Rannsóknin er takmörkuð af fremur fáum viðmælendum en niðurstöður dýpka skilning á vandamáli sem tengist lökum gæðum UFS upplýsinga. Þær eru viðeigandi fyrir almenn fyrirtæki, fjárfesta og eftirlitsaðila en það má nýta þær til að draga úr hindrunum sem tengjast skorti á gæðum UFS-upplýsinga. Þá bætir rannsóknin við þekkingu um UFS upplýsingar sem birtar eru í  sjálfbærniskýrslum fyrirtækja og eru nýttar til ákvarðana um sjálfbærar fjárfestingar. Rannsóknin veitir yfirsýn og dýpri skilning á gæðatengdum vandamálum í sjálfbærniskýrslum en þau vandamál eru hindrun fyrir víðtækari nýtingu gagna fyrir fjárfestingarákvarðanir.

Lykilorð: UFS skýrslur, UFS fjárfestingar, gæði UFS gagna, fagfjárfestar

 

 

Ágrip

Tilgangur rannsóknarinnar er að greina hvernig hagnýting gervigreindar í virðiskeðju getur stutt við sjálfbærnimarkmið fyrirtækja. Hún metur áskoranir og tækifæri þegar kemur að hagnýtingu gervigreindar til aukinnar skilvirkni virðiskeðju. Áhersla er á virðiskeðju fyrirtækis í heild, frá fyrstu stigum, svo sem öflun aðfanga frá landbúnaði og/eða fiskveiðum, yfir í vinnslustig, til dreifingar og neyslu.

Gagna er aflað um fyrri rannsóknir þegar kemur að hagnýtingu gervigreindar í virðiskeðju framleiðslufyrirtækja. Rannsóknin hvílir þess vegna á greiningu á fræðilegri umfjöllun, en jafnframt á eigindlegri nálgun þar sem tekin verða viðtöl við aðila frá ýmsum stigum virðiskeðju, þar á meðal í landbúnaði og fiskveiðum, framleiðslu, vinnslu og dreifingu. Raundæmi verður nýtt þar sem samstarf er við alþjóðlegt framleiðslufyrirtæki í smíði vinnsluvéla til matvælaframleiðslu.

Niðurstöður varpa ítarlegu ljósi á virðiskeðju fyrirtækja í matvælaiðnaði og sýna fyrir hvert stig hennar mögulegan ávinning fyrir sjálfbærni með beitingu gervigreindar í virðiskeðjunni. Í öðru lagi eru greind ýmis dæmi um raunverulega notkun gervigreindar í virðiskeðju, svo sem notkun auðlinda, gæðaeftirlit með hráefni og lágmörkun úrgangs. Rannsóknin varpar enn fremur ljósi á að notkun gervigreindar til stuðnings sjálfbærni er enn á upphafsstigum, bæði hvað varðar samþættingu við sjálfbærnistefnur og innleiðingu þeirra.

Takmarkanir rannsóknarinnar tengjast eigindlegri nálgun sem hvílir á aðgengi að viðmælendum, það er að segja hversu reiðubúnir þeir eru til að veita djúpa innsýn í efnið. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar er að niðurstöðurnar eiga að geta fært fyrirtækjum á sviði framleiðslu matvæla og vonandi í fleiri atvinnugreinum, ráð um það hvernig hagnýta megi gervigreind í virðiskeðju til stuðnings sjálfbærni. Markmiðið er að slík hagnýting nái allt frá öflun aðfanga, flutnings þeirra, til framleiðslu og dreifingu vara til neytenda. Niðurstöðurnar munu aðstoða við að bera kennsl á áskoranir við beitingu gervigreindar og settar eru fram tillögur að því hvernig megi sigrast á þeim áskorunum. Rannsóknin hjálpar til við að fylla í skarð þekkingar um stöðu, tækifæri og áskoranir gervigreindar í virðiskeðju fyrirtækja á sviði framleiðslu matvæla. Fáar rannsóknir hafa verið unnar á þessu sviði svo það vantar skilning á virðiskeðjunni þegar kemur að sjálfbærni og hvernig þættir virðiskeðjunnar tengjast, með áherslu á sjálfbærni.

Lykilorð: Gervigreind, virðiskeðja fæðuframboðs, sjálfbær matvælaiðnaður, Ísland.

 

Ágrip

Í íslenskum sjávarútvegi eru til staðar tækifæri til eflingar sjálfbærni, þar sem fjárhagslegur ábati á samleið með minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda og öðrum umhverfis- og samfélagsþáttum. Aðferðir kvikra kerfislíkana eru nýttar til að útbúa líkan af viðskiptamódeli sjávarútvegsins sem líkir eftir lykilferlum rekstrar og skoðar áhrif fjárfestinga í sjálfbærni á hagnað.

Íslenskur sjávarútvegur var greindur sem ein heild eða tilvik (e. case study). Stefna sjávarútvegsfyrirtækja, og aðgerðir voru greindar með tilliti til viðskiptatækifæra í sjálfbærni. Auk þess var hegðunarmunstur og orsakasamhengi (e.causal loop diagrams), kortlagt. Kvikt kerfislíkan var þróað á grundvelli greininga og forsendum sjálfbærra viðskiptamódela.

Niðurstöður sýna að þegar stefna sem skilgreina má sem „óbreytt rekstrarfyrirkomulag“ er borin saman við „sjálfbærnistefnu“, með auknum fjárfestingum, kemur í ljós að fjárfestingar upp að vissu marki skila sér í auknum tekjum og hagnaði. Þessi ávinningur hámarkast þegar 13% af heildartekjum eru nýttar til fjárfestinga í nýsköpun, en fer síðan lækkandi. Þegar „óbreytt rektrarfyrirkomulag“ er greint kerfisbundið kemur fram að fyrirtækin eru föst í gildru núverandi hæfni, sem algengt svar við breyttum áskorunum hjá fyrirtækjum.

Takmarkanir rannsóknarinnar snúa að því að í flóknu viðskiptaumhverfi sjávarútvegsins er ekki hægt að taka alla þætti með í reikninginn. Líkanið byggir á greiningum og fáanlegum tölum, sem og sambandi milli aðila sem fram koma í gögnum. Gögnin eru því ófullkomin lýsing á raunveruleikanum en íslenskur sjávarútvegur og náttúruvernd geta nýtt sér niðurstöðurnar sér til framdráttar þar sem hún sýnir hvernig hægt er að draga úr umhverfisáhrifum samhliða því að auka samkeppnisfærni. Aðrir geirar gætu einnig nýtt sér sambærilegar greiningar. Rannsóknin bætir við þekkingu á viðskiptamódelum sjálfbærni. Í rannsókninni er hegðun og viðskiptamódel greind, sem skilar fjárhagslegum ávinningi auk ávinningi tengdum sjálfbærni. Auk þess styður rannsóknin við það að fyrirtæki eiga það til að falla í gryfju eigin hæfni sem svar við nýjum áskorunum.

Þróun líkansins sýnir nýja túlkun á viðfangsefninu, þ.e. með því að sýna fram á hvernig nýta má aðferðarfræði kvikra kerfislíkana í viðskiptafræðirannsóknum.

Lykilorð: Viðskiptatækifæri, sjálfbærni, sjávarútvegur, kvik kerfislíkan

 

Ágrip

Markmið rannsóknarinnar er að útskýra sjálfbær viðskiptalíkön tískufyrirtækja á Norðurlöndunum og varpa ljósi á áherslu sem ætlað er að auka jafnvægi á milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta í viðskiptalíkönum þeirra.

Byggt er á eigindlegum rannsóknaraðferðum og grunduðum kenningum þar sem aðleiðslu (e. Inductive) var beitt í gagnavinnslu til að öðlast ákveðinn skilning út frá þeim gögnum sem aflað var. Tekin voru hálfstöðluð viðtöl við stjórnendur norrænna félagasamtaka á sviði tísku og stjórnendur tískufyrirtækja ásamt því að greining var gerð á inntaki sjálfbærniskýrslna 32 tískufyrirtækja.

Niðurstöður eru settar fram í þremur flokkum, virðisloforð, (e. value proposition), virðisauki (e. Value creation and delivery), virðissköpun (e. value capture). Hvað viðskiptalíkönin varðar koma fram áherslur um það hvernig lengja megi líftíma tískufatnaðar, hanna endingarbetri vörur, að hönnunin sé óháð kyni og að áhersla sé á tímalausa hönnun. Niðurstöðurnar gefa vísbendingu um skort á heildrænni nálgun þegar kemur að sjálfbærni innan tískuiðnaðarins en skortur á heildrænni nálgun kemur í veg fyrir að fyrirtæki færi sig frá ósjálfbærum viðskiptalíkönum yfir í sjálfbærari viðskiptalíkön.

Rannsóknin leitast við að greina sjálfbærni í viðskiptalíkönum norrænna tískufyrirtækja og varpa ljósi á áherslu sem ætlað er að auka jafnvægi á milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta. Áherslan var á fyrirtæki með félagasaðild í félagasamtökum á Norðurlöndunum sem takmarkar að ekki sé hægt að alhæfa fyrir heildina. Rannsóknin veitir innsýn í það hvernig tekið er á félagslegum, umhverfislegum og efnahagslegum þáttum og þeim vanda og hindrunum sem tískuiðnaðurinn stendur frammi fyrir. Einnig veitir hún innsýn í þær aðgerðir sem  stjórnendur tískufyrirtækjanna beita til að auka áherslur á sjálfbærni innan atvinnugreinarinnar. Rannsókninni er ætlað að bæta þekkingu þegar kemur að sjálfbærni og viðskiptalíkönum fyrirtækja starfa innan tískugeirans. Hún dregur fram ákveðna þekkingu á því sviði ásamt því að setja fram hagnýttar niðurstöður fyrir stjórnendur tískufyrirtækja sem og stjórnendur norrænna félagasamtaka í atvinnugreininni í þeim tilgangi að efla skilning þeirra á stöðu málaflokksins. Þá geta niðurstöður gagnast stjórnvöldum hvað varðar lagalega umgjörð um starfsemi tískufyrirtækja hvað sjálfbærni varðar.

Lykilorð: Norræn, Tíska, Sjálfbærni, Viðskiptalíkön