Klasar og nýsköpun

Image
Viðskipti og vísindi
HVENÆR
17. mars 2023
09:00 til 11:00
HVAR
Háskólatorg
HT-103
NÁNAR

Aðgangur ókeypis

Ágrip

Þeim sjónarmiðum hefur verið varpað fram að einkaleyfisvernd geti takmarkað aðgengi að nýsköpun og þannig valdið því að færri en þurfa geti notið þess ávinnings sem hún kynni að leiða af sér. Einkaleyfi geta þó leitt til aukinnar fjárfestingar í nýsköpun og þannig stuðlað að nýtingu vísindalegrar þekkingar til aukinna hagsbóta fyrir samfélagið. Regluverk fyrir einkaleyfi er flókið og þeir sem sækja um þurfa að gæta vel að þeim leikreglum sem um þau gilda. Það er því áhugavert að fá innsýn í helstu þætti sem takmarakað geta öflun og nýtingu einkaleyfa og mögulegar skuggahliðar þeirra. Í þessari rannsókn verður rýnt í fyrirliggjandi þekkingu um einkaleyfi og umsóknarferli þeirra með það að markmiði að varpa ljósi á helstu þætti sem geta takmarkað nýtingu þeirra og þannig komið í veg fyrir þá hagsæld sem nýsköpunin getur leitt af sér.

Rannsóknin var unnin með kerfisbundinni fræðilegri greiningu þar sem rýnt var í fyrirliggjandi þekkingu á grundvelli leitarskilyrða sem þróuð voru til að finna fræðigreinar sem svarað gætu rannsóknarspurningunni. Leitast var við að beita sjálfvirkum og fljótvirkum aðferðum sem uppfylltu vönduð vinnubrögð. Leitað var að greinum í gagnaveitunni Web of Science, en hún inniheldur yfir 9.000 tímarit og býður uppá aðgengilega aðferð til að sía út greinar sem mikið hafði verið vitnað í. Jafnframt var leitin takmörkuð við gæðagreinar með að lágmarki tilteknum fjölda tilvísana og greinar sem  birtar höfðu verið í tímaritum sem voru áhrifarík samkvæmt Scimago (SJR).

Niðurstöðurnar varpa ljósi á marga þætti sem hafa áhrif á nýtingu einkaleyfa. Meðal tveggja helstu skuggahliða eru annars vegar hættan á að upplýsingar er varða uppfinninguna leki út of snemma og komi þannig í veg fyrir að afurðin komist í notkun og hins vegar að fjárfestar takmarki nýjungina einungis við sinn eigin rekstur og komi þannig í veg fyrir að aðrir sem hagsmuni hafi geti notið ávinningsins.

Takmarkanir snúa að því að rannsóknin byggir einungis á greinum í gagnagrunninum Web of Science og tekur hún því ekki til þeirra greina sem ekki er að finna þar, en eru aðgengilegar í öðrum gagnagrunnum. Rannsóknin dregur hinsvegar fram mikilvæga þætti sem frumkvöðlar og aðrir sem koma að stjórnun nýsköpunar gætu haft í huga. Einnig dregur rannsóknin saman og varpar ljósi á mikilvæga þekkingu um einkaleyfi byggt á gæðagreinum sem birtar hafa verið í viðurkenndum ritrýndum tímaritum.

Lykilorð: Einkaleyfi, nýsköpun, nýting þekkingar

 

Ágrip

Fjallað er um rannsókn á vaxtarsamningum og klasastarfi sem var tengt vaxtarsamningum. Stjórnvöld á Íslandi gerðu vaxtarsamninga við landshluta á Íslandi á árunum 2004 – 2015 til að ýta undir atvinnuþróun og vöxt á viðkomandi svæðum. Í vaxtarsamningunum var lögð sérstök áhersla á klasastarf. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á það að hvaða marki vaxtarsamningarnir voru tengdir upphafi og framvindu formlegs klasastarfs á Íslandi.

Rannsóknin byggir að stórum hluta á öflun og greiningu á fyrirliggjandi gögnum. Einnig voru tekin viðtöl við marga aðila sem komu að gerð og framkvæmd vaxtarsamninga. Viðmælendur komu bæði frá stjórnvöldum (miðlægt) og frá landshlutum. Takmarkanir rannsóknarinnar snúa að því að aðeins var rætt við lítinn hluta þeirra fjölmörgu aðila sem komu að gerð og framkvæmd vaxtarsamninga. Einnig var að hluta til torsótt að fá gögn.

Rannsókn á fyrirliggjandi gögnum og viðtöl leiddu í ljós að vaxtarsamningar ýttu undir að stofnað væri til formlegs klasastarfs en einnig var um hvata til óformlegs starfs. Áherslur vaxtarsamninga voru víðtækar en engu að síður var mikil áhersla á hvata til eflingar á klösum og klasastarfi á Íslandi.

Hagnýtt gildi rannsóknarinnar er að ljósi er varpað á það hvernig klasastarfi var hrint af stað á Íslandi og bent er á atriði sem gefa innsýn í starfið við íslenskar aðstæður. Einnig gefur rannsóknin til kynna að það hafi vantað upp á skilning á því hvað klasi og klasastarf er. Umfjöllun um þessi hugtök auðveldar að ná utan um þessi viðfangsefni og sjá þau í hagnýtu samhengi.

Mikilvægi klasa og klasastarfs í tengslum við þróun efnahagslífs og samfélags hefur á liðnum árum og áratugum verið staðfest í rannsóknum víðsvegar um heiminn. Hérlendis hefur ekki verið mikið fjallað um þessi fræði og rannsóknir af skornum skammti. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á það hvernig klasastarf hófst hér á landi og hvað varð til þess að vaxtarsamningar stjórnvalda við landshluta urðu farvegurinn. Þar sem Ísland er lítið land og fámennt eyríki þá eru aðstæður hér öðruvísi en hjá milljónaþjóðum. Rannsókn á klasastarfi við slíkar aðstæður gerir mögulegt að draga fram hvað er líkt og ólíkt í fræðunum og raunveruleikanum og eftir atvikum leggja til fræðanna.

Lykilorð: Klasar, vaxtarsamningar, formlegt klasastarf.

Ágrip

Erindi þetta miðar að því að auka þekkingu á hugmyndafræði og kenningum um smáklasa (e. micro-cluster). Smáklasakenningar eru nýjar af nálinni innan klasafræða. Fjallað er um sérstöðu smáklasa og hvernig þessi hugmyndafræði nýtist til eflingar á frumkvöðlastarfi og samkeppnishæfni í ferðaþjónustu. Fókusinn er á smærri frumkvöðla í ferðaþjónustu í dreifbýli (e. rural tourism) og samkeppnishæfni þeirra í gegnum samstarf, tengsl við önnur lykilfyrirtæki í greininni og við tengd fyrirtæki í nágrenninu.

Rannsóknin byggir á eigindlegum gögnum, til dæmis hálfopnum viðtölum við rekstraraðila í ferðaþjónustu og fyrri greiningum höfunda á klösum og tengslanetum, meðal annars í ferðaþjónustu. Í rannsókninni er lögð áhersla á að nýta kenningar um klasa og tengslanet til að greina mikilvægi þátta eins og nærsamfélagsins, sérhæfingar og virðis fyrir þróun tengslaneta í ferðaþjónustu í dreifbýli.

Frumniðurstöður benda til að smáklasar geti stutt við samkeppnishæfni og seiglu fyrirtækja og atvinnugreina  í dreifbýli á viðsjárverðum tímum. Einnig benda niðurstöður eindregið til að mikilvægt sé að greina enn frekar hið flókna eðli smáklasa og annarra tengslaneta í ferðaþjónustu í dreifbýli.

Takmarkanir rannsóknar felast meðal annars í takmörkuðu aðgengi að upplýsingum og gögnum sem og að rannsóknir á slíkum tengslanetum eru skammt á veg komnar. Í því felst þó að nýnæmi rannsóknarinnar er meira en ella. Hugmyndafræði um smáklasa nýtist sérstaklega vel fyrir frumkvöðla og atvinnugreinar í dreifbýli þar sem einkum eru lítil fyrirtæki. Í gegnum hugmyndafræði smáklasa opnast nýtt sjónarhorn á styrkleika og tækifæri í rekstri smárra ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni. Því er frekari greining á hugmyndafræðinni mikilvæg fyrir ferðaþjónustu sem atvinnugrein. Margt er enn órannsakað varðandi virkni og eðli smáklasasamstarfs, ekki síst á sviði ferðaþjónustu. Smáklasahugtakið dregur fram tiltölulega nýtt sjónarhorn á eldri og þekktari kenningar um klasa og tengslanet. Þannig skapar smáklasahugsunin tækfæri til að horfa á atvinnugreinar í öðru ljósi en hingað til hefur verið gert og til að víkka út umfjöllun um hefðbundnari klasafræði.

Lykilorð: smáklasar, tengslanet, virði, samskeppnihæfni

Ágrip

Fyrsta viðskiptamiðaða frumkvöðlasetrið á Íslandi var stofnað árið 1999 af Iðntæknistofnun Íslands. Nýsköpunarmiðstöð Íslands tók við rekstrinum árið 2007. Þegar miðstöðin var lögð niður í lok ársins 2020 hafði hún komið að stofnun eða rekstri yfir 20 frumkvöðlasetra. Tilgangur umfjöllunarinnar er að draga lærdóm af því starfi tengdu frumkvöðlasetrum sem Nýsköpunarmiðstöðin var í forystu fyrir og miðla því hver helstu einkenni og ávinningur af starfinu voru.

Við rannsóknina, sem gerð var haustið 2020, var byggt á öflun og greiningu á fyrirliggjandi gögnum. Jafnframt var unnið úr viðtölum við aðila tengda frumkvöðlasetrum, bæði utan og innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Viðtöl voru afrituð, kóðuð og þemu voru sett fram.

Saga frumkvöðlasetra sem tengdust starfi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands spannar 21 ár, þ.e. frá 1999 til 2020. Frumkvöðlasetrin sem tilgreind eru í rannsókninni voru 21 talsins. Rekstur frumkvöðlasetra var um allt land en umfangsmesta starfið var á höfuðborgarsvæðinu. Rannsókn á þessum setrum leiddi í ljós að þau mátti flokka í fjóra flokka og þessir flokkar voru um margt mismunandi. Um er að ræða sérhæfð setur, setur tengd bankahruni, setur sem fengu þjónustu frá Nýsköpunarmiðstöð og setur sem voru starfandi á landsbyggðinni. Rannsóknin dregur fram helstu einkennin á starfi frumkvöðlasetranna sem rannsóknin tók til. Niðurstöður gefa vísbendingar um áherslur í þjónustu setranna og helstu einkennin á starfsemi þeirra.

Takmarkanir rannsóknarinnar snúa að því að byggt var á fyrirliggjandi gögnum, s.s. skýrslum, ársritum og kynningarefni, sem tími gafst til að finna. Einnig var fjöldi viðmælenda takmarkaður við sjö aðila. Rannsóknin var þess vegna skilgreind sem lýsandi könnunarrannsókn og sem fyrsta skrefið í að afla þekkingar á frumkvöðlasetrum á Íslandi.

Rannsóknin varpar ljósi á hvað einkennir starfsemi frumkvöðlasetra í umhverfi eins og á Íslandi. Niðurstöður gætu nýst stjórnendum og stjórnvöldum. Niðurstöðurnar eru innlegg til þekkingar á því sem helst hefur einkennt starfsemi frumkvöðlasetra á Íslandi á síðustu 20 árum. Reynslan á Íslandi er sett í samhengi við fræðilegar rannsóknir á frumkvöðlasetrum sem gerir það mögulegt að sjá reynsluna frá Íslandi í stærra samhengi.

Lykilorð: frumkvöðlasetur, þjónusta, starfseinkenni, frumkvöðlar