Getur þú beðið í 300 ár? - Jöfn tækifæri kynja til stjórnunarstarfa

Image
Viðskipti og vísindi
HVENÆR
17. mars 2023
09:00 til 11:00
HVAR
Háskólatorg
HT-104
NÁNAR

Aðgangur ókeypis

.

Ágrip

Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á hvaða leiðir eru mögulegar til að jafna tækifæri kynjanna til stjórnunarstarfa. Á heimsvísu eru konur 5% allra forstjóra skráðra félaga en hér á landi eru þær 17,3%. Sjónum er beint að upplifun stjórnarkvenna í skráðum félögum af því hvaða leiðir eru færar til að breyta stöðunni og auka möguleikann á því að kynin hafi jöfn tækifæri til stjórnunarstarfa.

Rannsóknin er hluti af stærri rannsókn um reynslu stjórnarkvenna af ráðningum forstjóra skráðra félaga. Tekin voru hálfstöðluð viðtöl við 22 konur í stjórnum allra skráðra félaga hér á landi. Notuð var aðferð grundaðrar kenningar til að skoða reynslu þeirra út frá rannsóknarspurningunni: hvaða leiðir er hægt að fara til að jafna tækifæri kynjanna til að gegna stjórnunarstöðum?

Niðurstöðurnar sýna að meðal ákjósanlegra lausna er að setja lög um kynjakvóta meðal framkvæmdastjórna félaga, hjá þeim félögum sem nú þegar falla undir lög um kynjakvóta á stjórnir þeirra. Önnur leið er að stjórnir innleiði markvissa jafnréttisstefnu innan fyrirtækja og þriðja leiðin er að leiðandi fagfjárfestar, svo sem lífeyrissjóðir, innleiði jafnréttisstefnu sem hluta af eigendastefnu sinni.

Veikleiki rannsóknarinnar er takmarkaður fjöldi viðmælenda og því ekki hægt að alhæfa um niðurstöðurnar. Einungis var rætt við kvenkyns stjórnarmenn þar sem fyrri rannsóknir benda á mikilvægi þess að kanna reynslu kvenna sem eiga sæti við stjórnarborðið. Í niðurstöðunum felast tillögur til hagaðila um það hvaða leiðir væri mögulega hægt að fara til þess að veita kynjunum jöfn tækifæri til stjórnunarstarfa. Niðurstöður rannsóknarinnar eru framlag til þekkingar um hvaða leiðir eru færar til þess að breyta stöðunni, ekki bara hér á landi heldur á þetta einnig við í öðrum löndum og sér í lagi þar sem sett hafa verið kynjakvótalög á stjórnir félaga.

Lykilorð: jafnréttisstefna; kynjakvótalög; skráð félög; æðstu stjórnendur

 

 

Ágrip

Fram hefur komið gagnrýni á ráðningarferli í forstjórastöður og þá sérstaklega á að of lítið sé um að stöðurnar séu auglýstar. Markmið rannsóknarinnar er að fá innsýn í reynslu og viðhorf þeirra kvenna sem sitja í stjórnum skráðra félaga og hafa tekið þátt í ráðningarferlum forstjóra af þætti auglýsinga í ferlinu.

Rannsóknin er hluti af stærri rannsókn um reynslu stjórnarkvenna af ráðningum forstjóra skráðra félaga. Í rannsókninni voru tekin viðtöl við stjórnarkonur allra skráðra félaga, 22 talsins. Viðtölin voru greind samkvæmt aðferðafræði grundaðrar kenningar.

Þemagreining leiddi í ljós þrjú þemu: Upplifun kvennana af auknum fjölbreytileika, þ.e. opnara ferli og að laða að umsækjendur sem ekki eru á radar stjórnarmeðlima, við að auglýsa forstjórastöður. Einnig kom fram áhersla þeirra á viljann til að sýna samfélagslega ábyrgð í verki og heilindi í ákvörðunum um auglýsingar. Loks komu fram efasemdir um auglýsingar vegna áhættu og viðkvæmrar stöðu félaganna og lýstu viðmælendur efasemdum um aðkomu ráðningarstofa.

Takmarkanir rannsóknarinnar snúa að því að niðurstöðurnar endurspegla einungis viðhorf og upplifun þess hóps kvenna sem rætt var við og er ekki ætlað að lýsa viðhorfum og upplifun annara kvenna eða annara stjórnarmeðlima. Hagnýtt gildi er að niðurstöðurnar benda til að huga þurfi sérstaklega að ýmsu í ráðningarferlum forstjóra, svo sem ákvörðunum um auglýsingu starfa og aðkomu ráðningarstofa. Reynsla viðmælenda undirstrikaði mikilvægan þátt auglýsinga í að auka fjölbreytileika og varpaði ljósi á takmarkandi þætti. Niðurstöðurnar dýpka skilning á reynslu þeirra kvenna sem sitja í stjórnum og taka ákvarðanir í ráðningarferlum forstjóra. Þó hlutur auglýsinga- og ráðningarstofa í ráðningarferlum hafi mikið verið rannsakaður eru afar fáar rannsóknir til sem lýsa viðhorfum og upplifunum stjórnarkvenna sem tekið hafa þátt í ráðningarferlinu.

 

Lykilorð: Auglýsing starfa, forstjóraráðningar, stjórnarkonur, ráðningarstofur, skráð félög

 

Ágrip

Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á hvers konar forystuhæfni er leitað að við ráðningar forstjóra skráðra félaga hér á landi. Sjónum er beint að upplifun stjórnarkvenna á mati á forystuhæfni kvenna til þess að gegna forstjórastöðum og af áhrifum tengslanets og stuðningi við konur í þessu sambandi.

Rannsóknin er hluti af stærri rannsókn um reynslu stjórnarkvenna af ráðningum forstjóra skráðra félaga. Tekin voru hálfstöðluð viðtöl við 22 konur í stjórnum allra skráðra félaga hér á landi með aðferð grundaðrar kenningar til að skoða reynslu þeirra út frá rannsóknarspurningunni: Hver er reynsla stjórnarkvenna í skráðum félögum af því hvað hefur áhrif á mat á hæfni kvenna til að gegna starfi forstjóra í skráðu félagi?

Niðurstöður sýna að konur eru taldar hæfar til forstjórastöðu en áhrif karla, tengslanet og staðalímyndir af forystuhæfni og árangursríkri forystu virðast ráða ákvörðunum. Niðurstöður gefa til kynna að kröfur til forystuhæfni kvenna við ráðningar forstjóra séu ekki í takt við nýja þekkingu um árangursríka forystu sem byggir á jafnvægi faglegrar staðfestu og hófstilltrar framgöngu sem eflir árangursrík samskipti, samvinnu, samstöðu og árangur. Með því að byggja á gömlum staðalímyndum er líklegt að horft sé framhjá hæfum einstaklingum til að leiða fyrirtækin til árangurs.

Veikleiki rannsóknarinnar er takmarkaður fjöldi viðmælenda og því ekki hægt að alhæfa um niðurstöðurnar. Einungis var rætt við kvenkyns stjórnarmenn þar sem fyrri rannsóknir benda á mikilvægi þess að kanna reynslu kvenna við stjórnarborðið. Í niðurstöðunum felast skilaboð um tækifæri fyrir stjórnir skráðra félaga til þess að auka gæði ráðninga forstjóra og jafna kynjamun með auknum fjölbreytileika og með því að miða ráðningarnar við árangursríka hæfni til forystu. Niðurstöður rannsóknarinnar eru framlag til þekkingar um hvers konar forystuhæfni er mikilvæg við ráðningar í æðstu stjórnunarstöður með innsýn í reynslu stjórnarkvenna hér um. Fram koma vísbendingar um að við ráðningarnar sé ekki byggt á nýrri þekkingu um árangursríka forystu sem ekki hefur komið fram áður svo vitað sé.

 

Lykilorð: árangursrík forysta; skráð félög; stjórnir; konur

 

Ágrip

Margt hefur áunnist í jafnréttismálum á Íslandi og ýmislegt verið gert til að jafna stöðu kynjanna. Helstu áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir er ójafnvægi kynjanna í æðstu stöðum. Það er útbreidd skoðun að ástæðan fyrir því hversu fáar konur eru í topp stjórnunarstöðum sé vegna skorts á framboði og að hindranirnar liggi hjá konunum sjálfum. Enn fremur halda margir því fram að metnaður kvenna sé ekki nógu mikill og að áherslur þeirra séu aðrar en hjá körlunum. Ekki eru allir sammála þessum rökum. Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða upplifun og sýn stjórnarkvenna í skráðum félögum á Íslandi á hindrunum sem koma í veg fyrir að konur gegni æðstu stjórnunarstöðum.

Fyrirbærafræðileg nálgun er viðeigandi en hún leggur grunn að kjarna upplifunar á ákveðnu fyrirbæri. Leitast er við að fá lýsingar stjórnarkvenna í skráðum félögum af upplifun þeirra af hindrunum kvenna á leið forstjórastöðu. Tekin voru viðtöl við 22 konur sem sitja í stjórnum allra skráðra félaga á Íslandi og notast var við fyrirbærafræðilega aðferðafræði við vinnslu og greiningu gagna. Skilyrði til að taka þátt er að þátttakendur rannsóknar hafi upplifað fyrirbærið sem verið er að rannsaka og geti deilt reynslunni með rannsakendum.

Byrjunarniðurstöður rannsóknar sýna fram á að þrátt fyrir aukna áherslu á jafnrétti kynjanna í íslensku atvinnulífi upplifa konur enn margvíslegar hindranir sem koma í veg fyrir að konur hljóti brautargengi í forstjórastöður. Fram kom fjöldinn allur af hindrunum sem hafa komið fram í fyrri rannsóknum eins og ráðingarferlið, tengslanet, fjölskylduábyrgð, kjarkleysi, ótti við að mæla með konum, reynsluleysi, skortur á gagnsæi, að það sé áhætta að ráða konur og að konum sé ekki treyst og mörg fleiri.

Takmarkanir rannsóknarinnar snúa að því að hún byggir á 22 viðtölum við helming kvenna sem sitja í stjórnum allra skráðra félaga á Íslandi. Þar af leiðandi er ekki hægt að alhæfa um upplifun annarra kvenna í stjórnum né annara stjórnarmanna. Niðurstöður rannsóknar benda á hindranir sem koma í veg fyrir að konur fái framgang í starfi. Framlag þessarar rannsóknar varpar ljósi á reynslu og upplifun stjórnarkvenna sem hlotið hafa mikillar velgengni og bætir við fyrri rannsóknir og fræði um hindranir sem koma í veg fyrir að konur verði ráðnar í starf forstjóra í skráðu félagi.

 

Lykilorð: Stjórnarkonur, hindranir, forstjórastöður, skráð félög.

 

 

.