Gagnsæi í fjármálum

Image
Viðskipti og vísindi
HVENÆR
16. mars 2023
13:00 til 15:00
HVAR
Háskólatorg
HT-104
NÁNAR

Aðgangur ókeypis

Ágrip

Á þriggja ára tímabili, 1999 til 2002, hrundu mörg stór og alþjóðleg fyrirtæki vegna fjármála- og bókhaldssvika. Eftirleikurinn var að endurheimta traust almennings og fjárfesta á fjármála- og hlutabréfamarkað sem og á reikningsskil félaga. Stór hluti af þeirri vinnu var meðal annars að innleiða ný og strangari lög og reglur. Ein aðgerð, lögbundin innleiðing endurskoðunarnefnda, hefur að öllum líkindum haft hvað mest áhrif á gerð og framsetningu reikningsskila. Árið 2009 samþykkti Alþingi lög varðandi það að einingar tengdar almannahagsmunum skulu skipa endurskoðunarnefndir. Var þetta eitt skref í að endurheimta traust almennings og fjárfesta. Markmið rannsóknarinnar er að svara rannsóknarspurningunni; Hefur starf endurskoðunarnefnda náð tilætluðu markmið, þ.e.  aukið traust og gagnsæi reikningsskila á Íslandi? Til að komast að því hvort starfsemi endurskoðunarnefnda á 10 ára tímabili á Íslandi hafi haft áhrif á traust og gagnsæi reikningsskila var gerð könnun meðal endurskoðenda.  

Rannsóknin byggir á könnun sem gerð var haustið 2022 en hún var send til allra endurskoðenda sem voru félagsmenn í Félagi löggiltra endurskoðenda (FLE). Svarhlutfall var um 20%. QuestionPro var notað til að halda utan um spurningar og svör.

Niðurstöðurnar sýna að endurskoðendur eru almennt sammála um að bæði gagnsæi og traust hafi aukist með tilkomu endurskoðunarnefndar varðandi reikningsskilin. Má því ætla að endurskoðunarnefndir hafi staðið undir væntingum markaðarins.

Takmarkanir rannsóknarinnar eru þær að þetta á við einn tímapunkt og er því ekki hægt að áætla þróun yfir tíma. Aðrir haghafar voru ekki meðal þátttakenda. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar er fyrst og fremst að mikilvægt er að fá afstöðu endurskoðenda til verklegrar starfsemi endurskoðunarnefnda og þá sérstaklega vegna hugtakanna gagnsæi og traust. Endurskoðendur eru sá hópur sem hefur bestu þekkingu og reynslu til að leggja mat á framlag endurskoðunarnefnda til að uppfylla ákvæði laga. Afstaða endurskoðenda er því mikilvæg í áframhaldandi starfsemi endurskoðunarnefnda. Rannsókn sýnir að gagnsæi og traust með til til umboðskenningar og góðra stjórnarhátta hafi aukist gagnvart fjárhagsupplýsingum með tilkomu endurskoðunarnefnda. Álykta má að lagaskyldan hafi verið rétt skref þ.e. skylda að skipa endurskoðunarnefndir. 

Lykilorð: reikningsskil, traust og gagnsæi.

Ágrip

Sýnt verður hver þróun kostnaðar af raunverulegri ávöxtun og væntri ávöxtun almennings í formi umsjónarlauna verðbréfasjóða fyrir almenning hefur verið síðustu ár

Rannsóknin ber umsjónarlaun verðbréfasjóða saman við árlega ávöxtun sjóða og einnig vænta ávöxtun miðað við ávöxtunarkröfu skuldabréfa í byrjun hvers árs og eðlilegt áhættuálag fyrir hlutabréfasjóði. Einnig verður þróun kostnaðar íslenskra verðbréfasjóða borin saman við erlenda verðbréfasjóða á tímabilinu. Einblínt er á árin 2015-2022. Á því tímabili reis hlutabréfamarkaður úr öskunni eftir hrunið 2008 og ávöxtunarkrafa skuldabréfa lækkaði jafnt og þétt, þangað til nýlega. Þetta getur skipt almenningi sem fjárfestir í sjóðum miklu máli.

Dregnar verða saman þróun árlegs kostnaðar verðbréfasjóða og ávöxtunar þeirra. Markmiðið er að sýna hvert hlutfallið sé sem almennir fjárfestar greiða fyrir aukinni áhættudreifingu í gegnum verðbréfasjóði.

Takmarkanir rannsóknarinnar er aðallega sú að ávöxtun hvers árs á tímabilinu 2015-2021 var einstaklega góð vegna lækkandi vaxtastigs á tímabilinu. Þetta kann að skekkja niðurstöður varðandi hlutfall kostnaðar við ávöxtun hvers árs, þar sem að lækkandi vaxtastig er almennt drifkraftur hærri ávöxtunar á langtímafjárfestingum. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar snýr að því að íslenskir fjárfestar verða betur meðvitaðir um þann árlega kostnað sem þeir greiða sem hlutfall af væntri ávöxtun til þess að ná ákveðinni áhættudreifingu. Þetta á sérstaklega við um íslenska hlutabréfasjóði, þar sem að fá félög eru skráð í Kauphöllinni og mörg þeirra eru í sama atvinnugeira. Það er nýnæmi á Íslandi að bera saman umsjónarlaun við (vænta) ávöxtun. Þörf er á slíku, sérstaklega í töluvert (enn) lægra vaxtaumhverfi en það hefur sögulega verið. Hægt verður í framhaldinu að rannsaka betur hver hlutfallslegur er fyrir minnkun á flökti ávöxtunar hjá almennum fjárfestum verðbréfasjóða.  Fræðilegt gildi fellst einnig í að ljósi er brugðið á sögulega þróun og samhengi hennar út frá verðbréfamörkuðum.

 

Lykilorð: Verðbréfasjóðir, umsjónarlaun, kostnaður, ávöxtun.

Ágrip

Samsetning á eignakörfum er grundvallaratriði í eignastýringu. Verð eigna þróast í tíma og virk vöktun á þróun eigna er því nauðsynleg. Mikilvægt markmið er að eignakarfa sé þannig hönnuð að breytileiki/áhætta sé sem minnst. Sambreytileiki (e. covariance) verðbreytinga gagnast við samsetningu bestu eignakörfu. Þessi breytileiki er óþekktur og verður að notast við tölfræðilegt mat. Fyrirliggjandi gögn eru söguleg viðskipti. Í þessari rannsókn er lögð fram aðferðafræði við að meta fylki sambreytileika byggð á gögnum af verðbréfamarkaði. Gögnin eru tímasett og tekið er tillit til þess að upplýsingaflæði um einstakar eignir er ekki í takt.

Gengið er út frá því að verðlagning eigna á markaði byggi á skilvirkum markaði (e. efficient market). Gert er ráð fyrir hreyfimynstur verðs fylgi slembigangi (e. random-walk) og mælingar innihaldi mæliskekkju. Sennileikafall er reiknað með Kalman-síu aðferð. Sambreytileiki er settur fram með aðferðum sem henta tölulegri hámörkun sennileikafalls. Þær aðferðir byggja meðal annars á Choleksi-þáttun og SVD-þáttun með Givens snúningum. Útreikningum er pakkað í R-pakka þannig að hægt sé að meta líkan þar sem gögn fyrir einstakar eignir flæða mishratt á markaði.

Niðurstöðurnar eru R-pakki með forritum sem framkvæma matið. Hægt er að setja skorður á sambreytileikafylkið, t.d. þannig að það hafi þáttaform (e. factor-structure). Takmarkanir  eru að aðferðirnar eru þungar í reikningum og því mikilvægt að skipuleggja gagnavinnslu í samræmi við það. Hagnýtt gildi rannsóknarinner er að hægt er að nota viðskiptaflæði á mörkuðum(e. tick-by-tick) beint við val á eignakörfu en framlag rannsóknarinnar er að hún snýst um aðferðafræði við að meta almennt fylki sambreytileika.

Lykilorð: Choleksi-þáttun, Givens-þáttun, skilvirkir markaðir

 

 

Ágrip

Rannsóknin gerir grein fyrir niðurstöðum úr tveimur rannsóknarverkefnum sem varða gagnsæi, stjórnarhætti og reikningsskil sjálfbærni. Annars vegar verður gerð grein fyrir niðurstöðum REF-rannsóknarverkefnisins þar sem sjónum var beint að samspili reikningsskila og endurskoðunar og virkni fjármálamarkaða. Hins vegar verður fjallað um nýtt rannsóknarverkefni þar sem greindar hafa verið þær kröfur sem íslensk fyrirtæki þurfa að uppfylla við innleiðingu tilskipunar ESB um sjálfbærniupplýsingar (CSRD) sem nær einnig til reikningsskila óefnislegra virðisþátta sem skipta máli í starfsemi viðkomandi skipulagsheildar. 

Í REF verkefninu var upplýsingagjöf skráðra fyrirtækja hér á landi greind með hliðsjón af viðmiðum um samþætta upplýsingagjöf og rammaumgjörð um forsendur gæða endurskoðunar. Seinna verkefnið er hluti af doktorsverkefni sem er ætlað að sýna fram á hvernig nota megi hagrænar matsaðferðir sem ná yfir óefnisleg atriði, t.d. landslag og ásýnd. Áskoranirnar þar eru þær sömu og þegar meta skal mikilvægi óefnislegra þátta tengt sjálfbærni fyrirtækja og fjalla um önnur óefnisleg atriði, þar með talið mikilvæg atriði sem varða hæfi viðkomandi fyrirtækis til virðissköpunar. Bæði rannsóknarverkefnin voru m.a. styrkt af námsstyrkja og rannsóknasjóði Félags löggiltra endurskoðenda.

Niðurstöðurnar eru í formi greiningar á því hver séu megin atriði nýrra viðmiða og hvaða áhrif nýjar kröfur í farvatninu munu hafa á upplýsingagjöf stærri skipulagsheilda hér á landi í framtíðinni. Það að kynna niðurstöður þessara rannsóknarverkefna er mikilvægur liður í vinnu við innleiðingu þessara nýju viðmiða hér á landi. Einnig er þetta mikilvægt innlegg í umræðu innan háskóla um það hvernig staðið skuli að kennslu á þessu sviði, í ljósi þess hversu þverfaglegt viðfangsefnið er. Auk kynningar á niðurstöðum verður haldinn málstofa um sama efni og tímaritsgrein verður tekin saman.

Fræðilegt gildi snýr að því að samtengja akademíska þekkingaruppbyggingu innan hagfræði um mat á óefnislegum virðisþáttum við viðskiptafræði, reikningsskil og endurskoðun. Einnig að tengja þessa þekkingu við viðfangsefni sem varðar almannahag um gagnsæi í rekstri stærri skipulagsheilda, ábyrga stjórnarhætti, innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og markmið um sjálfbæra þróun.

Lykilorð: Sjálfbærniupplýsingar - Gagnsæi - Stjórnarhættir - Óefnislegir virðisþættir