Fjármál, markaður og menning
14:00 til 16:00
Aðgangur ókeypis
Ágrip
Markmið rannsóknarinnar er að skoða þá leið sem farin var við sölu ríkissjóðs á hlutafé í Íslandsbanka árið 2022, hvers vegna hún var valin og hvernig tókst til.
Rannsóknin byggir að mestu á gögnum sem gerð hafa verið opinber frá Íslandsbanka, Fjármálaráðuneyti, Bankasýslu ríkisins, Ríkisendurskoðun og fjölmiðlaumfjöllun. Þá kunna að bætast við gögn frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Enn fremur verður skoðað að ræða við aðila sem léku lykilhlutverk. Greining á þessum gögnum verður nýtt til að skýra atburðarás og draga fram lykilákvarðanir og afleiðingar þeirra. Þetta verður borið saman við reynslugögn og fræðiskrif um sambærilega sölu hlutafjár erlendis og innlenda reynslu, m.a. af fyrri sölu ríkisins á hlutafé í sama banka, sem gerð var með öðrum hætti, sölu hlutafjár í Arion banka nokkru fyrr og eldri dæmi frá einkavæðingu banka í kringum síðustu aldamót, sem einnig hafa verið gagnrýnd nokkuð harkalega.
Salan hefur þegar verið harðlega gagnrýnd. Rannsóknin staðfestir að gagnrýnin er a.m.k. að hluta til réttmæt. Þannig liggur fyrir að markmið með vali á tilboðsgjöfum voru óljós og illa rökstudd. Enn fremur var ákvörðun um verð, sem var talsvert undir því sem hægt hefði verið að ákveða og selja þó allt sem til stóð, mjög dýr fyrir seljanda án þess að það hafi skilað neinum augljósum ávinningi fyrir aðra en kaupendur. Ýmislegt fleira fór úrskeiðis, m.a. tæknileg úrvinnsla úr tilboðum.
Helsta takmörkun rannsóknarinnar er að til skoðunar er eitt tilvik, sem getur verið lærdómsríkt en vitaskuld er þó varhugavert að alhæfa á grundvelli slíkrar rannsóknar. Samanburður við fyrri tilvik breikkar þó nálgunina að einhverju marki. Niðurstöðurnar geta verið mjög hagnýtar enda geta þær gefið leiðbeiningu, ekki eingöngu við sölu á frekari hlut í bankanum heldur almennt við sölu hlutafjár á íslenskum markaði. Töluverð umræða hefur þegar orðið um þessa sölu og skýrslur skrifaðar en þessi rannsókn mun setja atburðarásina í víðara samhengi, með grunni í fræðikenningum og samanburði við fyrri sölu hlutafjár, hérlendis og erlendis. Niðurstöðurnar ættu að auka almennt skilning á kostum og göllum mismunandi aðferða við einkavæðingu og almennt sölu hlutafjár og bæta við fræðilega þekkingu á því sviði.
Lykilorð: Hlutabréfamarkaður, einkavæðing, útboð.
Ágrip
Einstök lönd innan EFTA, Ísland og Sviss, hafa gert fríverslunarsamninga (FTA) við Kína. Þessi rannsókn veitir hagfræðilega greiningu á þeim EFTA-ríkjum sem hófu fríverslunarsamninga við Kína árið 2014 sem og Noregi sem er í fríverslunarviðræðum við Kína. Leitast er við að svara því hvort hagstætt sé fyrir EFTA-ríkin að hafa viðskiptasamning (FTA) við Kína.
Rannsóknin var framkvæmd með megindlegum aðferðum, aðhvarfsgreiningu og þyngdaraflslíkani (e. gravity model). Gögnin sem greind voru náðu yfir bæði útflutning og innflutning EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Sviss á tímabilinu 2010-2017. Ekki var gerð greining á gögnum frá Liechtenstein, þar sem þau gögn eru ekki auðfengin.
Niðurstöður eru jákvæðar fyrir útflutning frá Kína til EFTA-ríkjanna, en ekki fyrir útflutning frá EFTA til Kína. Niðurstaðan er því sú að fríverslunarsamningar EFTA ríkjanna virðast fyrst og fremst leiða til aukins útflutnings fyrir Kína.
Takmarkanir rannsóknarinnar snúa helst að því að skoða þyrfti gögn frá lengra tímabili auk þess sem skoða þarf betur heildaráhrif á auknum viðskiptum Kína og EFTA-ríkjanna. Annars var rannsóknin unnin á sama hátt og aðrar rannsóknir um fríverslun milli landa. Hvað varðar hagnýtt gildi rannsóknarinnar þá varpar hún ljósi á eðli utanríkisverslunar og hvert hún stefnir milli Íslands og næst stærsta hagkerfi heims, Kína en íslendingar þurfa að verða meðvitaðir um og hagsmuni sína og gæta þeirra í þessum málum. Þá bætir rannsóknin við fræði utanríkisverslunar og er einnig viðbót við þær mörgu rannsóknir sem notast hafa við þyngdaraflslíkanið
Lykilorð: Fríverslunarsamningar, þyngdaraflslíkan, Kína, EFTA.
Ágrip
Rannsóknin leggur mat á umhverfis- og einstaklingsþætti fjárhagslegrar áhættuhegðunar hjá viðskiptafræðinemum á Íslandi og í Póllandi. Í rannsókninni er athugað hvort umhverfis- eða einstaklingsþættir hafi áhrif á fjárhagslega áhættuhegðun (e. risk-taking behaviour) sem skilgreina má sem áhættuspil (e. gambling) og fjárfestingar (e. investing). Einnig er skoðað hvort menning hafi áhrif á fjárhagslega áhættuhegðun.
Spurningalista var dreift meðal íslenskra og pólskra viðskiptafræðinema með það að markmiði að afla upplýsinga um áhættuhegðun. Spurningarnar um áhættutöku voru byggðar á svokölluðum Domain-Specific Risk-Taking (DOSPERT) kvarða, þróaður af Blais og Weber árið 2006. Áhættutökuviðbrögðin meta hegðunaráform, eða líkurnar á áhættuhegðun einstaklinga á fimm sviðum; siðferðilega, félagslega, fjárhagslega, tengt heilsu og öryggi eða í afþreyingu. Fyrir þessa rannsókn var einungis notast við svið fjárhagslegrar áhættuhegðunar, skipt upp í fjárhættuspil og fjárfestingar. Frekari bakgrunnsbreytur voru greindar, svo sem kyn, þjóðerni, líkamsstærð, aldur og systkini. Rannsóknin var framkvæmd með QuestionPro og svöruðu 302 nemendur.
Niðurstöður sýna menningarlegan mun á fjárhagslegri áhættuhegðun. Sá munur einskorðaðist þó við fjárfestingar, þar sem að ungir íslenskir einstaklingar taka meiri áhættu en pólskir. Hvað fjárhættuspil varðar hafa eingöngu einstakir þættir áhrif en það eru kyn, líkamsstærð og fjárhagur, þ.e. hvort nemandinn sé í vinnu eða ekki.
Takmarkanir rannsóknar snúa að skekktu kynjahlutfalli meðal þátttakenda þar sem fleiri konur tóku þátt en karlar. Einnig eru þátttakendur takmarkaðir við viðskiptafræðinema í löndunum tveimur. Í framtíðarrannsóknum er stefnt að því að dreifa könnuninni til breiðari hóps og annarra þjóða. Slíkt myndi skapa forsendur til að skoða bakgrunnsbreytur betur til að kanna aðrar hugsanlegar ástæður fyrir fjárhagslegri áhættuhegðun einstaklinga, svo sem persónueinkenni, menntun, fjölda barna og tekjur. Niðurstöðurnar veita innsýn í menningarlegt samhengi og þar með áhrif hagstjórnar þegar kemur að áhættuhegðun einstaklinga í fjármálum, einkum með tilliti til fjárfestinga. Fjárfestingarákvarðanir verða fyrir áhrifum af umhverfinu og geta því fjölskylduaðstæður eða ástand efnahagslífsins haft áhrif en áhættuspil eru frekar einstaklingsbundin og verða síður fyrir áhrifum ytri aðstæðna.
Lykilorð: Áhættuhegðun, áhættuspil, fjárfesting, menning
Ágrip
Umfang skattsvika er umtalsvert hér á landi. Sé dregið úr slíkri hegðun er mögulega hægt að auka tekjur hins opinbera umtalsvert til að standa undir sameiginlegum verkefnum samfélagsins. Markmið rannsóknarinnar er annars vegar að varpa ljósi á hvað kunni að skýra það að sumir samfélagsþegnar eru líklegri en aðrir til að svíkja undan skatti. Í því skyni verður bæði einblínt á skattasiðferði og persónuleikaeinkenni einstaklinga. Hins vegar er markmiðið að greina hvaða hópa skattgreiðenda sé fýsilegt að miða aðgerðum að með það að leiðarljósi að draga úr skattsvikum.
Í gegnum rafrænt hentugleikaúrtak fengust svör frá 593 einstaklingum sem svöruðu spurningalista þar sem áform um skattsvik, skattasiðferði og persónuleiki var mældur.
Niðurstöðurnar sýndu að skattasiðferði hefur veigamesta forspárgildið um það hvort fólk sé líklegt til að svíkja undan skatti. Jafnframt reyndust persónuleikaeinkennin heiðarleiki og auðmýkt annars vegar og siðblinda hins vegar skipta töluverðu máli í þessu sambandi. Niðurstöður klasagreiningar leiddu í ljós að ákjósanlegt sé að skipta skattgreiðendum í þrjá hópa sem nefndir voru heiðvirðu samfélagsþegnarnir, hverfullu samfélagsþegnarnir og refjóttu samfélagsþegnarnir. Hinir heiðvirðu eru mjög ólíklegir til að svíkja undan skatti og hafa hátt skattasiðferði. Hinir tveir hóparnir, hinir hverfullu og refjóttu, eru hópar sem ætti markvisst að miða á til að draga úr skattsvikum, þó með ólíkum aðferðum sem útlistaðar eru í greininni.
Takmarkanir rannsóknarinnar snúa að því að þversniðsrannsóknir sem byggja á hentugleikaúrtaki ber alltaf að taka með fyrirvara. Töluvert fleiri konur voru í úrtakinu og æskilegt hefði verið að ná jafnari dreifingu í aldri. Jafnframt er eðlilegt að velta því upp hvort þátttakendur séu að öllu leyti hreinskilnir í svörum þegar spurt er um þætti eins og áform um skattsvik og skattasiðferði. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar snýr að því að forsenda þess að hægt sé að hafa áhrif á hegðun eins og skattsvik er að gera sér grein fyrir hvað skýri hegðunina, átta sig á hvaða hópa þurfi að miða aðgerðum að og með hvaða hætti eigi að gera það. Niðurstöðurnar varpa ljósi á alla þessa þætti og eru því verðmætar opinberum aðilum í þeirra viðleitni að draga úr skattsvikum. Þekking á því hvers vegna fólk svíkur undan skatti og hverjir séu líklegir til slíkrar hegðunar er takmörkuð, sér í lagi þegar kemur að innri þáttum eins og siðferði og persónuleika. Rannsóknin er því mikilvægt framlag til fræðanna og gefur atferlisvísindalega innsýn í viðfangsefnið.
Lykilorð: Skattsvik, skattasiðferði, HEXACO, Hin myrka þrenning
Ágrip
Notast er við eigindlegar rannsóknaraðferðir en rannsóknin er tilviksrannsókn, með grundaða kenningu þar sem vettvangsvinna þróast samhliða þróun kenninga og varpar fram nýrri sýn á gögnin. Í grunninn er stuðst við hálf-stöðluð viðtöl við stjórnendur í íslenskum, dönskum og sænskum fyrirtækjum og milliliði úr stuðningsumhverfinu. Viðtölin fóru aðallega fram í Japan en einnig í norrænum höfuðstöðvum og voru flest tekin á tímabilinu 2018-2019.
Niðurstöðurnar sýna upplifun viðmælenda á þessum tveimur mörkuðum sem „dagur og nótt.“ Helsti munurinn er sá að þú veist að hverju þú gengur í Japan, á meðan í Kína geta skráningareglugerðir breyst á svipstundu í miðju ferli. Einnig kom skýrt fram að miklar kröfur eru gerðar til fullkomleika vöru í Japan, meira en í nokkru öðru landi. Í báðum löndunum er mikilvægt að hafa innlenda milliliði og aðgengi að markaði er tímafrek. Til þess að varpa ljósi á niðurstöðurnar er litið til stofnanakenninga og þá sérstaklega áhrif laga og reglugerða annars vegar og ráðandi norma og gilda hins vegar en jafnframt litið til menningarlegra þátta.
Takmarkanir rannsóknar varða breytilega upplifun viðmælenda á menningu og stofnanaumhverfinu sem þýðir að ekki er hægt að alhæfa fyrir heildina. Ákveðnar takmarkanir fólust líka í því að lítill hópur norrænna LMF og milliliða hafa starfsemi á þessum mörkuðum. Þau fyrirtæki sem taka ákvörðun um að sækja á Japans- og/eða Kínamarkað þurfa að gera sér grein fyrir að þetta er bæði tímafrek og dýr ákvörðun. Báðir þessir markaðir eru stórir og möguleikar á ávinningi miklir en rannsókn sem þessi veitir nokkra innsýn í mögulegar hindranir í veginum. Einnig svarar rannsóknin kalli um meiri athuganir á LMF í stað stærri fyrirtækja sem og að líta til upphafsaðgengis í stað markaðsárangurs, áhrif aðstæðna á markaði og ekki síst að bera saman tvö lönd en samanburðarrannsóknir draga fram atriði sem ella væru hulin.
Lykilorð: Alþjóðavæðing, útflutningshindranir, skrifræði, markaðsaðgengi