Fjármál, hagfræði og reikningsskil
13:00 til 14:45
Aðgangur ókeypis
ATH. Hvert erindi fyrirlesara er í 20 mínútur
Ágrip
Markmið þessarar rannsóknar er að greina stöðu íslenska tryggingamarkaðarins í samanburði við önnur Evrópuríki, með áherslu á skaða- og líftryggingar og óvenjulega lágt samsett hlutfall í persónutryggingum á Íslandi. Rannsóknin byggir á gögnum frá 30 Evrópuríkjum þar sem samsett hlutfall (combined ratio), sem mælir hlutfall bóta og rekstrarkostnaðar af iðgjöldum, er notað til að varpa ljósi á rekstrarskilyrði og afkomu markaðarins. Lýsandi tölfræði og samanburðargreining veita innsýn í einstaka þætti sem einkenna íslenskan tryggingamarkað.
Niðurstöður sýna að skaðatryggingar (e. non-life) á Íslandi eru með samsett hlutfall 1,01, sem er rétt yfir jafnvægismörkum og sambærilegt við mörg önnur Evrópulönd. Líftryggingar á Íslandi, sem einnig ná til persónutrygginga (e. personal insurance), eru hins vegar með samsett hlutfall 0,60, sem er óvenjulega lágt miðað við evrópskt meðaltal upp á 1,05. Þetta lága hlutfall bendir til lágmarks bóta- og rekstrarkostnaðar í hlutfalli við iðgjöld, sem gæti skýrst af takmarkaðri útbreiðslu líftrygginga á Íslandi, sterku regluumhverfi eða lágu áhættustigi. Sérstaklega vekur athygli hversu hagstæð afkoma er í persónutryggingum, sem kallar á nánari skoðun á þáttum eins og neytendahegðun, markaðsaðstæðum og verðlagningu.
Takmarkanir rannsóknarinnar felast í ólíkum bókhaldsstöðlum og mismunandi regluumhverfi milli landa, sem geta haft áhrif á samanburðarhæfni gagna. Þrátt fyrir það veita niðurstöðurnar verðmæta innsýn fyrir tryggingafélög, stjórnvöld og stefnumótendur. Þær undirstrika mikilvægi þess að nýta sterka stöðu í persónutryggingum til nýsköpunar og frekari þróunar á markaðnum.
Rannsóknin varpar einnig ljósi á þörfina fyrir frekari greiningu á áhrifaþáttum sem gera íslenskan markað ólíkan öðrum Evrópulöndum, sérstaklega með tilliti til persónutrygginga og tengdra þátta.
Lykilorð: Persónutryggingar, Vátryggingamarkaður, Samsett hlutföll
Ágrip
Tilgangur greinarinnar er að rannsaka hvaða áhrif innleiðing alþjóðlegs reikningsskilastaðals um leigusamninga (IFRS 16) hafði á íslensk fyrirtæki og upplýsingagjöf í ársreikningum íslenskra fyrirtækja. Einnig er skoðað hvort innleiðing IFRS 16 á Íslandi hafi náð þeim markmiðum sem sett voru með innleiðingu staðalsins.
Rannsóknin byggir á greiningum á upplýsingum í ársreikningum skráðra íslenskra fyrirtækja fyrir og eftir innleiðingu IFRS 16 auk þess sem tekin voru viðtöl við fjármálastjóra, greiningaraðila og endurskoðendur.
Innleiðing IFRS 16 hafði töluverð áhrif á ársreikninga íslenskra fyrirtækja en þó voru áhrifin mismikil eftir atvinnugreinum. Viðtöl við hagaðila leiddu í ljós að álitamál væri um hvort staðallinn hafi í raun aukið notagildi og samanburðarhæfni ársreikninga sem var megintilgangurinn með innleiðingu IFRS 16. Þá kom einnig í ljós að umtalsverður kostnaður var við innleiðingu staðalsins en ávinningur takmarkaður miðað við tilkostnaðinn.
Hluti af rannsókninni byggir á eigindlegum rannsóknaraðferðum sem hvíla á aðgangi að viðmælendum.
Rannsókninni er ætlað að svara ákalli Alþjóðlega Reikningsskilaráðsins um hvort innleiðing IFRS 16 hafi náð fram markmiðum sínum og veita hagnýta innsýn inn í gagnsemi nýrra reikningsskilastaðla og skilja hvaða áhrif þeir hafa á ársreikninga. Rannsóknin nýtist því endurskoðendum, greiningaraðilum og opinberum aðilum sem vinna að gerð og innleiðingu reikningsskilastaðla.
Þessi rannsókn eykur þekkingu á áhrifum nýrra reikningsskilastaðla á ársreikninga og veitir innsýn í gagnsemi fjárhagsupplýsinga í ársreikningum fyrir hagaðila.
Lykilorð: Reikningsskilastaðlar, leigusamningar, IFRS 16
Ágrip
Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hugsanlega umframávöxtun skráðra íslenskra hlutabréfa við arðgreiðslu og prófa bæði viðteknar og nýlegar kenningar fyrir ástæðum hennar. °
Við arðgreiðslu félags fara fjármunir út úr félaginu til hluthafa og á skilvirkum markaði ætti markaðsvirði félagsins því að lækka sem nemur arðgreiðslunni. Fjölmargar erlendar rannsóknir undanfarna áratugi hafa sýnt að lækkunin virðist almennt minni en fjárhæð arðgreiðslunnar. Fyrsta rannsóknin á þessu var birt árið 1955 og lengi vel var viðtekin skýring sú að ástæðan væri skattlagning arðgreiðslna. Á síðasta áratug síðustu aldar komu fram rannsóknir sem sýndu að það gæti ekki verið eina skýringin þar sem þessi áhrif virðast einnig koma fram þar sem arðgreiðslur eru ekki skattlagðar. Fleiri skýringar komu fram í kjölfarið, þar á meðal að rekja mætti þessi áhrif til stærðar verðskrefa í kauphöll. Þeirri tilgátu hefur einnig verið hafnað á mörkuðum þar sem verðskref eru lítil. Undanfarin ár hafa komið fram frekari kenningar um þessar ástæður, annars vegar að skýra megi þetta með takmörkuðum seljanleika og hins vegar að áhrifin komi fram yfir lengri tíma.
Við reiknum ávöxtun hlutabréfa á arðleysisdegi fyrir allar 150 arðgreiðslur skráðra íslenskra félaga á árunum 2012 – 2024 og prófum með viðeigandi tölfræðiprófum hvort framangreindar kenningar geti gefið skýringu á henni. Við fjöllum einnig um einstök dæmi um arðgreiðslur þar sem viðbrögð markaðarins hafa verið mjög í ósamræmi við tilgátuna um skilvirkni markaða.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að verðlækkun skráðra íslenskra hlutabréfa á arðleysisdegi er að meðaltali minni en fjárhæð arðgreiðslunnar, eða um 70-80%, og ávöxtun hlutabréfa á arðleysisdegi er að meðaltali um 0,5% og er tölfræðilega marktæk. Við sýnum að hvorki skattlagning arðgreiðslna né verðskref á markaði geta útskýrt þessa ávöxtun. Við prófum einnig hvort skýra megi ávöxtunina með takmörkuðum seljanleika og/eða að áhrifin komi fram yfir lengri tíma eftir arðgreiðslu.
Rannsóknin takmarkast við að prófa viðteknar og nýlegar kenningar á hugsanlegri umframávöxtun hlutabréfa á arðleysisdegi.
Rannsóknin hefur hagnýtt gildi bæði fyrir fjárfesta og hlutafélög á íslenskum markaði. Hún varpar ljósi á það hvernig markaðsaðilar á íslenskum hlutabréfamarkaði bregðast við arðgreiðslum félaga og hvaða skýringar geti verið þar að baki.
Fræðilegt gildi og vísindalegt framlag rannsóknarinnar er að prófa bæði viðteknar og nýlegar kenningar um hegðun hlutabréfa á arðleysisdegi á íslenskum markaði og skilvirkni hans.
Lykilorð: Arðgreiðslur, umframávöxtun, skilvirkni markaða.
Ágrip
Tilgangur rannsóknarinnar er að draga fram og greina efnahagsleg áhrif hamfara í mjög víðum skilningi á íslenskt samfélag og viðbragða við þeim.
Þessi rannsókn fjallar um margþætt eðli hamfara út frá efnahagslegu sjónarhorni og tekur til bæði náttúrulegra og manngerðra áfalla sem ógna samfélögum á heimsvísu, með sérstakri áherslu á Ísland. Greiningin hefst á því að skilgreina áhættu og óvissu sem leggur grunninn að skilningi á því hvernig samfélög meta og bregðast við ófyrirsjáanlegum ógnunum. Rannsóknin tekur síðan fyrir náttúruhamfarir, þar á meðal eldgos, jarðskjálfta og loftslagsatburði og greinir áhrif þeirra á innviði og samfélög. Þá er fjallað um viðbrögð samfélaga og endurreisnarferli. Sérstök áhersla er lögð á sérstöðu Íslands gagnvart slíkum atburðum vegna landfræðilegra og jarðfræðilegra aðstæðna og kerfislægra áskorana. Einnig er fjallað um manngerða áhættu, svo sem pólitísk umrótsár, efnahagslegt hrun og heilbrigðiskreppur, með áherslu á afleiðingar stefnumótandi ákvarðana á félagslegan stöðugleika og efnahagslega velferð. Rannsóknin skoðar sérstaklega hvernig nýlegar hnattrænar áskoranir—svo sem fjármálahrunið 2008, sem lagði íslenska fjármálakerfið í rúst, COVID-19 faraldurinn og hnattræn hlýnun—sýna hvernig slík áhætta getur magnast í kerfum sem fyrir eru veikburða.
Rannsóknin dregur saman sögulega reynslu og skilar áætlunum sem horfa til framtíðar, þar sem lögð er áhersla á mikilvægi traustra innviða, upplýstrar áhættustjórnunar og aðlögunargetu í stefnumótun. Með því að byggja á þverfaglegum rannsóknum veitir hann innsýn sem eru nauðsynlegar fyrir stefnumótendur og fræðimenn sem hafa áhuga á efnahagslegu viðnámsþoli og viðbúnaði við hamförum, og tekur dæmi úr íslenskri sögu sem sýna þetta í framkvæmd.
Rannsóknin er efni í a.m.k. eina bók, sem er vitaskuld í smíðum, en hér verður einungis kynntur lítill hluti hennar.
Það liggur í hlutarins eðli að sérhverju samfélagi er mikilvægt að búa sig vel undir hamfarir.
Greining á hamförum á Íslandi hefur fyrst og fremst verið unnin út frá sjónarhóli náttúruvísinda en hér er loks komið að því að beitt sé tækjum og tólum félagsvísinda, einkum hagfræði við þá vinnu. Þá eru hamfarir skoðaðar frá miklu víðari sjónarhól en hingað til. Þetta er því tímamótaverk!
Lykilorð: Áhætta, óvissa, fjármálahrun, náttúruvá, manngerð vá
Tilgangur rannsóknarinnar er að greina aðgengi innflytjenda að fjármálaþjónustu á Íslandi, meta mögulega hættu á fjárhagslegri útilokun og mögulegri fjárhagslegri misnotkun og ákvarða hvernig fjárhagsleg útilokun hefur áhrif á félagslega aðlögun innflytjenda.
Við byrjum á ítarlegri greiningu á skjölum sem sýna stefnu banka á Íslandi varðandi reglur og reglugerðir margs konar bankastarfsemi og hvernig þessar mismunandi reglur hafa áhrif á innflytjendur. Í öðru lagi kortleggjum við núverandi þjónustu og aðgengi hennar að erlendum íbúum (bæði hvað varðar hæfisskilyrði og verð á þjónustu). Í þessum hluta eru einnig viðtöl við fulltrúa fjármálastofnana. Lokastigið samanstendur af viðtölum við pólska innflytjendur til að fræðast um fjármálahætti þeirra og aðferðir til að glíma við fjárhagslega þætti, bæði í daglegu lífi og fjárfestingum.
Rannsókn stendur yfir þegar þetta er skrifað. Bráðabirgðaniðurstöður koma fram í fyrirlestri.
Þetta er fyrsta skrefið í svona rannsókn. Margvíslegar takmarkanir geta meðal annars tengst mismunandi menningu, sem hefur þá áhrif á viðhorf til stofnanna og hvað sé ásættanlegt í störfum þeirra.
Athugað er hvort að stór fjöldi nýrra Íslendinga fái þá fjármálaþjónustu sem aðrir fá og ef ske kynni að þeir fái hana ekki, eða séu ekki meðvitaðir um hana, hvaða bragarbætur séu í boði.
Fræðilegt gildi tengist menningarlega fjármálahegðun, hreyfanleika fólks og innflytjendamál.
Lykilorð: Fjármálaþjónusta, bankar, innflytjendur, hreyfanleiki