Fjármál, hagfræði og lög

Image
HVENÆR
14. mars 2024
13:00 til 14:30
HVAR
Háskólatorg
Stofa HT-101
NÁNAR

Aðgangur ókeypis

ATH. Hvert erindi fyrirlesara er í 20 mínútur

 

Ágrip

Dregið verður saman helstu niðurstöður varðandi aðstæður leigjenda í tengslum við aukna ferðamennsku og hvernig COVID-19 hafði í raun lítil áhrif á stöðu þeirra.

Byrjað er á því að lýsa stöðu leigjendamarkaðarins og hvernig stefnur stjórnvalda á öðrum sviðum, sérstaklega í þessu tilviki stefna stjórnvalda í ferðamálum, hafa áhrif á stöðu fólks á leigumarkaði. Í því sambandi kemur fram að aukning fólks á leigumarkaði var mikil í framhaldi af hruninu. Lýst er stöðu leigjenda og hvernig hún hefur þróast síðustu ár. Fram kemur að áhersla stjórnvalda á aukningu ferðamanna, sem hefur reynst Íslandi jákvætt efnahagslega séð, hefur þó haft neikvæð áhrif á leigjendur, með aukningu á framboði húsnæðis í skammtímaleigu á kostnað fjölda eigna í langtímaleigu. Slíkt tengist að stórum hluta til fjölda ferðamanna sem hefur leitt til þess að framboð á húsnæði í langtímaleigu hefur dregist saman en einnig hefur eftirspurnin aukist vegna fjölda fólks sem starfar á leigumarkaði. Þessi þróun hefur aukið óöryggi fólks á leigumarkaði og gert því erfiðara fyrir að ná endum saman, skjóta rótum í sama hverfi og safna fyrir nýrri íbúð. Tekið eru viðtöl við 27 einstaklinga á leigumarkaði og kannað viðhorf þeirra, með sérstakri áherslu á ofangreinda þætti.

Þrátt fyrir að efnahagur Íslands hafi verið stöðugur og mikill árin eftir hrun þá hefur staða leigjenda ekki batnað. Þeir glíma við óöryggi, háa leigu og þurfa oft að sætta sig við vanbúið húsnæði eða að hafa enga leigusamninga. Á tímum COVID-19 jókst framboð tímabundið, en öryggi leigjenda breyttist lítið þar sem að flestir töldu, réttilega, að slík aukning framboðs yrði einungis tímabundin.

Erfitt er að meta hversu margir leigjendur eru á Íslandi tímabundið þar sem að margir sjálfir telja sig vera hér tímabundið en ílengjast síðan.

Rannsóknin sýnir að leigjendur á Íslandi glíma við mikið óöryggi. Því er nauðsynlegt að stjórnvöld myndi stefnu fyrir leigjendur þar sem að tryggt sé nægjanlegt framboð á húsnæði fyrir þann hóp fólks til að vigta á móti samdrætti framboðs á húsnæði

Rannsóknir á sviði húsnæðismála á Íslandi eru takmarkaðar. Þessi rannsókn er framlag til rannsókna varðandi efnahagsvöxt (ferðamennsku) og þau áhrif sem slíkur vöxtur gæti haft á einstaka hópa samfélagsins.

Lykilorð: Húsnæði, leigumarkaður, ferðamennska

Ágrip

Samfélagslega skaðlegt kaupendavald á vinnumarkaði myndi yfirleitt ekki vekja upp samkeppnisréttarleg álitamál í kerfi sem leggur fyrst og fremst áherslu á velferð neytenda við réttarvörslu á sviði samkeppnismála. Sterkur kaupandi vinnuafls lækkar launakostnað og neytendur gætu notið góðs af. Með því að einblína á einfalda auðmælanlega hagfræðilega mælikvarða skapast hætta á því að ýmsir þættir sem máli skipta í stærra samhengi verði ekki teknir með í reikninginn. Það helgast af þeim takmörkunum sem leiða af aðferðafræði takmarkaðrar jafnvægisgreiningar (partial equilibrium analysis). Þessar takmarkanir verða hins vegar tæpast yfirunnar með því að útvíkka takmörkuðu jafnvægisgreininguna til fleiri þátta, eða með því að freista þess að gera altæka jafnvægisgreiningu (general equilibrium analysis), enda er þá hætt við að framkvæmd réttarvörslu á sviði samkeppnisréttar yrði óheyrilega flókin, seinvirk og kostnaðarsöm. Í þessari rannsókn eru aðrar leiðir til þess að rökstyðja beitingu samkeppnisréttar til þess að draga úr neikvæðum áhrifum markaðsbresta á vinnumörkuðum skoðaðar. Rök eru færð fyrir því að með því að líta á samkeppnislög sem verkfæri til þess að skipuleggja vald á mörkuðum sé unnt að finna afmarkað hlutverk fyrir samkeppnisrétt í reglusetningu vinnumarkaða.

Rannsóknaraðferðin er fyrst og fremst kenningarleg, en rannsóknin snýr að kenningarlegum markmiðum samkeppnisréttarins. Færð eru rök fyrir því að með annarri kenningarlegri nálgun megi leysa sum að þeim vandamálum sem felast í veikri stöðu starfsfólks á sumum vinnumörkuðum.

Þær ályktanir sem dregnar eru afmarkast við aðstæður þar sem kaupendavald er ríkjandi á vinnumörkuðum.

Rannsóknina væri hægt að hagnýta til þess að breyta nálgun í réttarvörslu á sviði samkeppnisréttar og til þess að skipuleggja vinnumarkaði.

Rannsóknin byggir á nýlegum rannsóknum sem dregið hafa fram vankanta á ríkjandi kenningargrunni réttarvörslu á sviði samkeppnisréttar. Framlag greinarinnar felst í að greina þessa tilteknu vankanta og leggja til öðruvísi nálgun sem gæti að einhverju marki lagfært eða dregið úr þessum vanköntum.

Lykilorð: Samkeppnisréttur, vinnumarkaður, velferð, vald

Ágrip

Jarðhræringar á Reykjanesi undanfarin ár hafa dregið skýrt fram þá áhættu sem fylgir búsetu á eldvirku svæði. Í annað sinn á hálfri öld er stórt sveitarfélag á íslenskan mælikvarða í stórhættu vegna eldgosa. Jafnframt liggur fyrir að hugsanlegt er að miklu meiri verðmæti á höfuðborgarsvæðinu gætu orðið í hættu vegna jarðhræringa. Rannsókninni er ætlað að varpa ljósi á efnahagslegar hliðar þessa og sérstaklega draga fram hvernig hægt er að draga úr áhættu og dreifa og hve mikil áhætta getur talist ásættanleg.

Rannsóknin byggir á fyrirliggjandi sögulegum gögnum um jarðhræringar og jarðvísindalegu mati á hættusvæðum. Þær niðurstöður eru tengdar við gögn um íbúafjölda og mat á verðmæti mannvirkja, sérstaklega húsnæðis og veitukerfa. Rýnt er hvernig líklegt er að geti reynt á náttúruhamfaratryggingar og aðrar leiðir til að bæta tjón. Þótt fyrst og fremst sé horft til jarðhræringa er einnig litið til annars konar náttúruvár og tjóns af mannavöldum.

Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að þótt vænt árlegt tjón vegna náttúruvár á Íslandi sé tiltölulega lág upphæð, sem hlutfall af heildarverðmæti mannvirkja, þá sé æskilegt að taka ríkara tillit til verstu sviðsmynda, m.a. við staðarval og hönnun mannvirkja. Enn fremur gæti verið æskilegt að endurskoða hvernig fjárhagslegu tjóni, umfram það sem fyrirliggjandi tryggingar bæta, er dreift um samfélagið.

Rannsóknin byggir á takmörkuðum gögnum enda fjallað um mjög strjála viðburði. Niðurstöður raunvísinda sem byggt er á eru með verulegum skekkjumörkum. Hér er því fyrst og fremst um sviðsmyndagreiningu að ræða frekar en tölfræðilega greiningu.

Viðfangsefnið er afar hagnýtt og brýn þörf fyrir svör af augljósum ástæðum.

Rannsóknin tvinnar saman þekkingu úr hagfræði og tengdum greinum, svo sem áhættumati og -stjórnun og tryggingafræðilegum útreikningum, við niðurstöður úr raunvísindum til að veita svör við spurningum sem brenna á samfélaginu. Byggt er nánast eingöngu á innlendum dæmum en niðurstöðurnar gætu verið hagnýtar annars staðar og jafnvel vakið áhuga hins merka alþjóðlega vísindasamfélags.

Lykilorð: Óvissa, áhætta, náttúruvá, tryggingar

Ágrip

Veruleg aukning í sjálfbærum fjárfestingum (SF) hins opinbera og einkaaðila er forsenda þess að efla sjálfbæra þróun á heimsvísu, en til þess að svo sé beita stjórnvöld auknum aðgerðum, eins og lagasetningu, efnahagshvötum, upplýsingaveitu og/eða samstarfi við hlutaðeigandi aðila. Aftur á móti skortir rannsóknir á aðgerðum stjórnvalda í tengslum við SF. Í þessu fræðilega yfirlit er gerð grein fyrir aðgerðum stjórnvalda í 31 Evrópulandi varðandi stuðning við SF.

Gögnum var safnað frá Web of Science, sem er einn stærsti og mest notaði gagnagrunnur fyrir vísindalegar greinar. Þá var gagnagreiningarhugbúnaðinn NVivo notaður til þess að flokka og greina gögnin út frá fyrirfram ákveðnum kóðum.

Niðurstöður benda til þess að 1) aðgerðir stjórnvalda í tengslum við SF hafi þróast út frá aðgerðum stjórnvalda til að auka samfélagsábyrgð fyrirtækja, 2) lykilstaðlar og leiðbeiningar fyrir SF eru útgefnar af alþjóðastofnunum og Evrópusambandinu (ESB) og eru þær að þróast frá því að vera valfrjálsar yfir í það að vera lögboðnar og 3) SF er leiðandi fjárfestingastefna í Evrópulöndum þar sem stjórnvöld beita blöndu af lagasetningu með efnahagslegum hvötum, upplýsingaveitu og/eða samstarfi.

Rannsóknin er að einhverju leyti takmörkuð vegna skorts á tiltækum gögnum frá 19 af 31 Evrópulandi. Engu að síður, dýpkar rannsóknin skilning á mikilvægu hlutverki stjórnvalda í að beina fjármagni í átt að sjálfbærum fjárfestingarkostum.

Niðurstöðurnar hafa hagnýtt gildi í formi samanburðarmats, fyrir stjórnvöld, fjárfesta og fyrirtæki sem vilja stuðla að sjálfbærri þróun. 

Fræðilegt framlag rannsóknarinnar mun dýpka skilning á þróun lykilstaðla og leiðbeininga fyrir SF. Einnig dregur rannsóknin fram til hvaða aðgerða stjórnvöld í Evrópu grípa svo stuðla megi að aukningu á sjálfbærum fjárfestingum.

Lykilorð: Sjálfbær fjárfesting, Evrópa, stjórnvöld, inngrip